Ný heilsugæsla vígð á Akureyri
Heilbrigðisráðherra vígði á mánudaginn nýja heilsugæslu á Akureyri. Stöðin er fyrsta sérhannaða heilsugæslan í bænum.
Mánudaginn 4. mars vígði heilbrigðisráðherra nýja heilsugæslustöð á Akureyri. Nýja stöðin er í heilsutengda þjónustiukjarnanum Sunnuhlíð, alls er stöðin um 1840 fermetrar og verður næstu misserin eina heilsugæslan á Akureyri. Um 70 manns starfa í stöðinni.
Nýja stöðin er fyrsta sérhannaða heilsugæslustöðin á Akureyri. Gamla heilsugæslan í Amaróhúsinu var fyrir löngu sprungin, enda hefur íbúum Akureyrar fjölgað um þriðjung frá aldamótum. Gamla stöðin var opnuð á 9. áratug síðustu aldarí húsnæði sem ekki var ætlað fyrir starfsemi heilsugæslu. Starfsemi stöðvarinnar var flutt úr Amaróhúsinu fyrir ári síðan vegna rakaskemmda í húsinu.
Árið 2022 samdi Heilbrigðisráðuneytið við Reginn, að undangengnu útboði, um leigu á 1700 fermetra húsnæði sérhannað fyrir heilsugæslu til að minnsta kosti15 ára. Átti þá eftir að byggja hluta húsnæðisins og innrétta allt húsnæðið sérstaklega fyrir þessi not.
FSRE stýrði verkefninu fyrir hönd ráðuneytisins frá upphafi til enda. Í því fólst þarfagreining og húslýsing, gerð útboðsskilmála, samningagerð og svo eftirlit með framkvæmdum og fullnustu leigusamnings.
Unnið er að því að önnur heilsugæslustöð rísi á Akureyri á næstu misserum.
FSRE óskar starfsfólki HSN og íbúum Akureyrar til hamingju með nýju stöðina.Meginmál