5. október 2024

Nýtt líf á Laugavegi 166

FSRE býður stofnunum ríkisins upp á fasteignaþjónustu með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Persónuvernd, Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra flytja inn í nýtt húsnæði við Laugaveg 166.

Í upphafi sumars færðist aftur líf í húsnæðið við  Laugaveg 166, þar sem Skatturinn var áður til húsa. 

Eftir að Skatturinn flutti alla starfsemi sína undir eitt þak í Katrínartúni 6  stóð Laugavegur 166 auður  um tíma. Ákveðið var að ráðast í smávægilegar breytingar og útvega opinberum stofnunum tímabundið aðsetur þar. Lagt var upp með að  halda breytingum í lágmarki en tryggja góða aðstöðu bæði fyrir starfsmenn og gesti. Hægt var að nýta þann búnað sem fyrir var í húsinu og bjóða  nýjum notendum fullbúna aðstöðu með húsgögnum. Þessi þjónusta er í samræmi við þá hugmyndafræði að geta útvegað starfsfólki ríkisstofnana nútímalega aðstöðu þar sem hægt er að flytja inn og út með skömmum fyrirvara og taka sem minnst með sér.

Starfsemi stofnana hins opinbera er í stöðugri þróun og verður aðstaðan að endurspegla þá þróun. FSRE er nýtin stofnun þar sem hvorki húsgögnum né fermetrum er sólundað og þannig sé tryggð  hagkvæmni í rekstri og lágmarks auðlindanotkun. 

 Á Laugavegi 166 er stigið enn eitt skrefið í þeirri vegferð FSRE að þróa svokallaðar Deiglur þar sem stofnanir samnýta sem mest af aðstöðunni ásamt því að spara tíma, kostnað og fyrirhöfn stofnana við að reka sínar starfsstöðvar. Hugmyndin um Deiglu hefur verið í þróun í rúmlega tvö ár hjá og hafa ýmis skref verið tekin við að innleiða þá hugmynd. Á komandi misserum mun FSRE taka til við að skoða hlutverk lóða og bygginga á þessum áberandi götureit í borginni. Hugað verður að þróun reitsins í samvinnu við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og með tilliti til þróunar Borgarlínu sem mun eiga leið hjá.

 FSRE býður Persónuvernd, Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra hjartanlega velkomin í nýja húsnæðið og hlökkum til að taka á móti MAST á næstu mánuðum.


Fréttalisti