Ráðuneyti flytja tímabundið í Síðumúla 24
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) og Byggingarfélag Gunnars og Gylfa undirrituðu á föstudag tímabundinn samning um leigu á fasteign við Síðumúla 24 í Reykjavík.
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) og Byggingarfélag Gunnars og Gylfa undirrituðu á föstudag tímabundinn samning um leigu á fasteign við Síðumúla 24 í Reykjavík.
Húsnæðið er ætlað sem bráðabirgðahúsnæði fyrir tvö ráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. Ráðuneytin tvö hafa deilt húsnæði í Skógarhlíð 6 frá því í febrúar 2017. Fyrirhugað er að ráðuneytin fái framtíðaraðstöðu í Skúlagötu 4, en nú standa yfir viðamiklar endurbætur á því húsi.
Í núverandi húsnæði ráðuneytanna í Skógarhlíð komu upp rakaskemmdir auk þess sem innra fyrirkomulag húsnæðisins er ekki talið uppfylla viðmið um nútímalegt og sveigjanlegt vinnuumhverfi.
Síðumúli 24 er þriggja hæða bygging, alls 3.228 fermetrar að stærð. Húsið, sem er um tveggja áratuga gamalt, hýsti áður höfuðstöðvar TM. Það er vel útbúið og nútímalegt skrifstofuhúsnæði og þarf litlar breytingar á því áður en ráðuneytin fá það til afhendingar. Fyrirhugaður afhendingartími er 10. maí.
FSRE hefur með höndun aðstöðusköpun fyrir opinbera aðila. Stofnunin leigir, byggir og endurbætir fyrirliggjandi húsnæði ríkisins. Stofnunin hefur umsjón með 530 þúsund fermetra fasteignasafni ríkisins, sinnir viðhaldi, útleigu og veitir stofnunum ýmsa þjónustu sem varðar aðstöðu.