Snjóflóð féll á varnargarða í byggingu á Patreksfirði
Varnargarðar sem nú eru í byggingu á Patreksfirði sönnuðu gildi sitt í vikunni. Snjóflóð féll á garðana, sem forðuðu því að flóð félli á húsnæði í bænum.
Meðfylgjandi myndir, sem fengnar eru frá verkstjóra Suðurverks, verktaka framkvæmdanna á Patreksfirði, sýna hversu mikilvæg þessi miklu mannvirki eru.
Srecko Kezevic, verkstjóri Suðurverks á staðnum kom að snjóflóðinu á mánudagsmorgun. „Ég hafði sem betur fer fært vinnuvélar okkar til á sunnudagskvöld, þannig að ekkert tjón varð á okkar búnaði.“
Stærsta flóðið sem féll aðfararnótt mánudags féll úr Yxnahamri niður í átt að bænum.
Varnargarðarnir á Patreksfirði, sem nú eru í byggingu.
„Þetta var býsna stórt flóð. Það féll á toppinn á garðinum og megnið af því fór austanmegni garðsins, en stöðvaðist 10-15 metra frá gatnamótum Hóla og Mýra. Það hefði getað farið illa ef garðurinn væri ekki risinn. Náman okkar nánast fylltist af snjó.“ Segir Srecko.
Garðarnir á Patreksfirði eru gríðarleg mannvirki. Um 300 þúsund rúmmetrar jarðvegs fara í varnargarðana; Urðargarð og Mýrargarð. Garðarnir munu breyta ásýnd bæjarins til frambúðar, en FSRE leggur mikla áherslu á að varnargarðar nýtist einnig sem útivistarsvæði á þeim tímum sem flóðaógn steðjar ekki að. Framkvæmdir hafa staðið síðan 2020, en framkvæmdum á að ljúka á næsta ári. Um 62% framkvæmdanna er nú lokið. Skoða má myndasafn af framkvæmdunum á vefsvæði verktakans hér . Sjón er sögu ríkari.
Flóðið stöðvaðist á varnargarðinum. Mynd: Srecko Knezevic/Suðurverk
Patreksfirðingar þekkja vel ógnina sem stafar af snjóflóðum.
Árið 1983 féll snjóflóð á bæinn. Fernt fórst í flóðinu og 19 hús skemmdust.
Nýju garðarnir, sem þegar hafa sannað gildi sitt, munu án efa auka verulega
öryggistilfinningu bæjarbúa um ókomna tíð.