Við mótum og rekum aðstöðu í allra þágu
Haustið 2021 runnu Framkvæmdasýsla ríkisins og Ríkiseignir saman í eina stofnun, Framkvæmdasýsluna - Ríkiseignir, eða FSRE.
Stofnanirnar höfðu þá starfað samhliða í góðu samstarfi um margra ára skeið. Ríkisieignir höfðu haft eignasafn ríkisins og jarðir og lendur í sinni umsjón, en Framkæmdasýslan sinnt byggingu og endurbótum á aðstöðu og öflun leiguhúsnæðis ríkisstofnana og ráðuneyta. Árið 2019 höfðu forstöðumenn beggja stofnana frumkvæði að vinnustofu með fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu þar sem samlegð og samhæfing í starfsemi stofnananna var skoðuð en fyrir þann tíma hafði lengi verið litið til norrænna fyrirmynda um samhæfðan fasteignarekstur ríkisins. Breytingin árið 2021 átti sér því langan aðdraganda. Í ágúst 2021 tók svo Fjármálaráðherra ákvörðun um að fela Framkvæmdasýslunni verkefni Ríkiseigna og myndi samþætt stofnun heita Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir (FSRE).
Kjarnahlutverk FSRE
Einkennisorð FSRE - Aðstaða í allra þágu endurspegla það kjarnahlutverk stofnunarinnar að reka, viðhalda og þróa aðstöðu sem nýtist í samfélagslegu þágu.
Eignasafn FSRE er stærsta fasteignasafn landsins sem hefur snertifleti við flest svið mannlísins, alls 530 þúsund fermetrar í 350 eignum og rúmlega 300 jarðir. Innan eignasafnsins er að m.a. að finna hjúkrunarheimili, framhaldsskóla, lögreglustöðvar, dómshús, skrifstofur ráðuneyta og undirstofnana og nokkrar af helstu menningarbyggingum landsins. FSRE veitir jafnframt ráðgjöf og þjónustu til ríkisaðila vegna opinberra framkvæmda utan eignasafns FSRE í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda.
Sameinaðri stofnun er falið stærsta eignasafn landsins sem hefur snertifleti við flest svið mannlífsins
Eignirnar sem við hjá FSRE rekum tengjast m.a. heilbrigðis- og velferðarmálum, menningu, menntun, löggæslu, dómskerfi, náttúru og friðlýstum svæðum og innan safnsins er að finna nokkrar af helstu perlum íslenskrar byggingarlistar. Í eignasafninu eru falin gríðarleg verðmæti, hvort sem litið er til fjárbindingar, menningar- og náttúruverðmæta eða áhrifa á hjól íslensks samfélags. Þetta fjöregg er eign almennings og í því felast mikil verðmæti en jafnframt gríðarleg tækifæri á tímum þegar stafræn þróun, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og loftlagsáskoranir berja að dyrum.
Það er staðreynd að umhverfisvænasti fermeterinn er sá sem þegar er byggður og við vitum að víða leynast tækifæri til að nýta innviði ríkisins með markvissari hætti, hvort sem horft er til fjármuna, umhverfismála eða virkni samfélagsins. Þá er stafræn þróun að valda straumhvörfum í þjónustuferlum ríkisaðila og mikilvægt er að fasteignasafn ríkisins aðlagist þeim. Með því að hafa framkvæmdir, rekstur og endurbætur aðstöðu ríkisins undir einum hatti skapast tækifæri til að nýta verðmætin okkar betur, mæta betur þörfum notenda aðstöðunnar og létta á daglegu fasteignaumstangi ríkisaðila með heildstæðari þjónustu.