Hús íslenskunnar - Edda
- Staða: Verkefni lokið
Fréttir
- 23. apríl 2023 Edda rís - myndbönd um byggingu húss íslenskunnar
- Framkvæmdir við Hús íslenskunnar á undan áætlun
Um verkefnið
Lengi hefur staðið til að reisa mannvirki til að varðveita þau íslensku handrit sem skilað var frá Danmörku. Mennta- og menningarmálaráðuneytið skilaði af sér skýrslu árið 2007 þar sem gert var ráð fyrir húsnæði fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Háskóli Íslands gaf byggingarreit við Arngrímsgötu 5 í Reykjavík, á milli Háskólans og Þjóðarbókhlöðunnar við Suðurgötu. Í kjölfarið var efnt til hönnunarsamkeppni á vormánuðum 2008 og niðurstöður voru kynntar 21. ágúst 2008. Alls bárust 19 fjölbreyttar og skemmtilegar tillögur og augljóst að höfundar nálguðust viðfangsefnið af miklum metnaði og frumleika. 1. verðlaun hlaut Hornsteinar arkitektar ehf. og Almenna verkfræðistofan sem tæknilegur ráðgjafi þeirra.
Í janúar 2009 var samningur milli verkkaupa og hönnuða undirritaður á grundvelli 1. verðlauna í hönnunarsamkeppni. Jarðvinna Húss íslenskunnar var boðin út árið 2013 og framkvæmdum þar að lútandi lauk það ár. Húsbyggingin var einnig boðin út sama ár en þeim framkvæmdum var frestað. Veturinn 2016–2017 var hönnun rýnd og uppfærð, meðal annars með hliðsjón af ákvæðum nýrrar byggingarreglugerðar. Útboði vegna framkvæmda lauk í febrúar 2019 og gengið var til samninga við lægstbjóðanda, Ístak, sem aðalverktaka húss og lóðar. Verklegar framkvæmdir hófust sumarið 2019 og þeim lauk í mars 2023.
Eftirtaldir aðilar voru ráðgjafar verkkaupa við verkið:
- Arkitektar: Hornsteinar arkitektar ehf.
- Burðarþol og lagnir: Almenna verkfræðistofan hf. / nú Verkís hf.
- Bruna-, hljóð- og öryggishönnun, BREEAM: EFLA verkfræðistofa hf.
- Raflagnir: Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar / nú Lota ehf.
- Lýsingarhönnun: Hollenska fyrirtækið Arup.
Hús íslenskunnar hýsir fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar er miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum, tungu, bókmenntum og sögu. Húsið mun sömuleiðis varðveita frumgögn um íslenska menningu; handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými og má þar nefna vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanemendur, fyrirlestrasali, bókasafn með lesrými og aðstaða fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum. Sérstök áhersla er lögð á öryggi og öryggismál og er handritageymslan í kjallara hússins til dæmis hönnuð sem „hús í húsinu“. Háar öryggiskröfur eru gerðar til byggingarinnar og hönnun tók mið af þeim kröfum.
Grunnflötur
Byggingin er 6.477 m² á þremur hæðum, auk kjallara undir hluta þess. Opinn bílakjallari er sunnan og vestan megin við húsið. Byggingin er sporöskjulaga og er formið brotið upp með útskotum og inngörðum. Að utan er byggingin klædd opnum málmhjúp með skreytingum af handritunum. Lóð hússins er 6.502 m². Gönguleið milli Háskóla Íslands og Þjóðarbókhlöðu liggur í gegnum bygginguna sem er umlukin grunnri spegiltjörn. Innan sporöskjulaga formsins er komið fyrir inngörðum sem skrifstofur og fleiri rými opnast út í. Í kjallara er aðallega að finna þjónusturými svo sem eldhús, skiptiaðstöðu starfsmanna, geymslur þ.m.t. handritageymslur og tengd rými. Þá er bílageymsla í kjallara, aðstaða fyrir sorp og sorpflokkun, tæknirými o.fl.
Helstu stærðir:
- Lóð: 6.502 m²
- Brúttó flötur byggingar: 6.477 m²
- Brúttó rúmmál: 28.458 m³
- Nýtingarhlutfall lóðar: 1.0
- Byggingarmagn ofanjarðar: 5.165 m²
- Stærð bílakjallara: 2.250 m²
- Bílastæði í bílakjallara: 60 bílastæði
- Bílastæði á lóð: 12 bílastæði
Teikningar sem mega fylgja með (dags. 4.4.2023)
Umhverfisáherslur
Hús íslenskunnar er framsækið leiðsöguverkefni sem hefur nýtt sér nýjustu hugmyndafræði upplýsingalíkana mannvirkja (Building Information Modeling - BIM) og aðferðafræði vistvænnar hönnunar. Á verktíma var sérstök áhersla lögð á samfélagslega ábyrgð og þá sér í lagi á umhverfis-, öryggis- og réttindamál. Þetta fól í sér öryggisráðstafanir eins og lokað vinnusvæði með aðgangsstýrðu öryggishliði, ítarlega öryggisfræðslu fyrir starfsfólk og undirverktakamat til að tryggja réttindi starfsfólks. Einnig var framkvæmd nákvæm skráning og flokkun úrgangs í allt að níu flokka. Niðurstaða þeirrar vinnu er meðal annars að engin vinnuslys urðu á verktíma og að byggingin mun hljóta alþjóðlega umhverfisvottun.
Byggingin verður vottuð sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu BREEAM með einkunnina „Very Good“ (>55%). Það felur í sér að byggingin og innviðir hafi sem minnst umhverfisáhrif á líftíma sínum, séu heilsusamlegir fyrir notendur og að viðhaldsþörf verði sem minnst.
Hvað varðar vistfræðilegar áherslur í hönnun Húss íslenskunnar þá er þak byggingarinnar klætt gróðurmiklu torfi sem stuðlar að náttúrulegri vatnsuppsöfnun og einangrun. Umhverfis bygginguna er spegiltjörn. Grunnvatn stendur nokkuð hátt á lóðinni og á hönnunartíma kom upp sú hugmynd að leggja jarðvatnslögn frá lóðinni undir Suðurgötu, gegnum lóð Háskólans og út í Vatnsmýri. Þar með fæst sjálfrennandi vatn frá lóðinni sem minnkar hættu á leka í kjallara hússins og eykur jafnframt gæði lífríkis í tjörninni í Vatnsmýrinni.
Notkun og rekstur
Tekinn var saman kostnaður sem kemur að rekstri byggingarinnar s.s. kostnaður vegna orkunotkunar, þrif, umsjónar og eftirlits. Framangreindur kostnaður var reiknaður út frá rauntölum, launatöxtum og magntölum þeirra flata sem eru með reglubundin þrif. Stuðst var við afköst í Noregi við áætlun á þrifum. Heildarkostnaður við bygginguna er um 98,9% af áætlun frá 2019 á verðlagi dagsins í dag.
- Stofnkostnaður: 4.377.411.000 (675.839 ISK/m²)
- Viðhalds- og rekstrarkostnaður á 80 árum: 3.391.738.300 (523.659 ISK/m²)
- Líftímakostnaður alls: 7.769.149.300 (1.199.498 ISK/m²)
Varðandi áætlaða orkunotkun í rekstri, þá er hægt að miða við afláætlun (W/m²) sem notuð var við ákvörðun heimtaugar á sínum tíma en forsendur voru þá:
- Stærð hús 6200 m² og áætlað álag 40 W/m² = 350,4 kWh/m² á ári
- Stærð bílakjallara 1700 m² og áætlað álag 15 W/m² = 131,4 kWh/m² á ári
Ef miðað er við ofangreinar álagstölur (W/m²) í 8 tíma, svo 1/3 í 8 tíma og ¼ í 8 tíma fæst:
- Stærð hús 6200 m² og áætlað álag 40 W/m² = 181,04 kWh/m² á ári
- Stærð bílakjallara 1700 m² og áætlað álag 15 W/m² = 67,89 kWh/m² á ári
Ef miðað er við rauntölur frá október 2023 þá var orkunotkun í byggingarinnar í heild sinni 36.913 kWh eða um 68,39 kWh/m² á ári. Vatnsnotkun var um 1489 m3 og má þá áætla að notkun verði 17.868 m3 á ári eða um 2,76 m3/ m2. Hafa ber í huga að ekki var full starfsemi hafin í byggingunni í október 2023.
Grunnmyndir af hverri hæð:
V:\Í VINNSLU\Flokkur 02 Menntamálaráðuneytið\602 1310 Hús íslenskra fræða-VERKLEG FRAMKVÆMD-frá 2019\11 Umhverfi\11-03 Umhverfisáætlun\Man 09 og 10
.
Frumathugun
Unnin var samkeppnislýsing og efnt til samkeppni á árinu 2008.
Niðurstöður úr samkeppninni voru kynntar 21. ágúst 2008. Alls bárust 19 fjölbreyttar og skemmtilegar tillögur og augljóst að höfundar nálguðust viðfangsefnið af miklum metnaði og frumleika.
Þar eru þær bækur sem aldrei og hvergi fást slíkar til dómadags.
Arnas Arnæus í Eldi í Kaupinhafn eftir Halldór Laxnes
1. verðlaun hlaut Hornsteinar arkitektar ehf., Almenna verkfræðistofan (Sigurður Gunnarsson Dr. Ing.)
2. verðlaun hlaut PK arkitektar ehf. Pálmar Kristmundsson, arkitekt, Fernando de Mendonca, arkitekt, Cassiano Rabelo, arkitekt, Leonardo Collucci, arkitekt, Böðvar Tómasson, verkfræðingur, Línuhönnun hf.
3. verðlaun hlaut VA arkitektar ehf., Þórhallur Sigurðsson, arkitekt FAÍ, MAA, Harpa Heimisdóttir, arkitekt, Fractal Iceland
Áætlunargerð
Hús íslenskunnar verður við Arngrímsgötu 5. Lóðin afmarkast af Suðurgötu til austurs, Guðbrandsgötu til suðurs og Arngrímsgötu til vesturs. Norðan megin við Hús íslenskunnar er Þjóðarbókhlaðan.
Í janúar 2009 var samningur milli verkkaupa og hönnuða undirritaður á grundvelli 1. verðlauna í hönnunarsamkeppni. Jarðvinna Húss íslenskunnar var boðin út árið 2013 og framkvæmdum þar að lútandi lauk það ár. Húsbyggingin var einnig boðin út sama ár en þeim framkvæmdum var frestað.
Byggingin verður um 6.500 m2 á þremur hæðum, auk kjallara undir hluta hússins ásamt opnum bílakjallara við húsið. Form byggingarinnar er sporöskjulaga og brotið upp með útskotum og inngörðum. Að utan verður byggingin klædd opnum málmhjúpi með skreytingum af handritunum.
Veturinn 2016–2017 var hönnun rýnd og uppfærð, meðal annars með hliðsjón af ákvæðum nýrrar byggingarreglugerðar. Útboði vegna framkvæmda lauk með í febrúar 2019. Gengið var til samninga við lægstbjóðanda, Ístak, sem verður aðalverktaki húss og lóðar. Verklegar framkvæmdir hefjast sumarið 2019 og er áætlað að þeim ljúki í febrúar árið 2022.
Eftirtaldir aðilar eru ráðgjafar verkkaupa við verkið:
- Arkitektar: Hornsteinar arkitektar ehf.
- Burðarþol og lagnir: Almenna verkfræðistofan hf. / nú Verkís hf.
- Bruna-, hljóð- og öryggishönnun, BREEAM: EFLA verkfræðistofa hf.
- Raflagnir: Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar / nú Lota ehf.
- Lýsingarhönnun: Hollenska fyrirtækið Arup.
Hús íslenskunnar er leiðsöguverkefni þar sem unnið hefur verið með nýjungar í BIM og vistvænni hönnun. Stefnt er að því að byggingin verði vottuð sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu BREEAM.