Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, 1. og 2. hæð - Suðurálma
- Verkkaupi: Velferðarráðuneytið
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 608 6203
- Verkefnastjóri: Sigurður Norðdahl
Um verkefnið
Framkvæmdum við innréttingar 1. og 2. hæðar suðurálmu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) lauk árið 2007. Um var að ræða innréttingar á 1.600 m² (fermetra) svæði og endurinnréttingu á 370 m² í tengibyggingu, auk lóðarfrágangs.
Verkkaupi var heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Framkvæmdasýsla ríkisins hafði umsjón með framkvæmdunum, verkefnastjóri var Sigurður Norðdahl, FSR. Arkitekt innréttinganna var AVH ehf. Arkitekta- og verkfræðistofa Hauks ehf. (sem nú heitir AVH ehf. Arkitektúr - verkfræði - hönnun), VST hf. (Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf.) annaðist hönnun burðarþols og lagna og Raftákn ehf. hönnun raflagna. Verktaki var P.A. Byggingarverktaki ehf.
Frumathugun
Framkvæmdir við innréttingar við suðurálmu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri stóðu yfir alllengi með hléum og var álman um skeið að mestu aðeins fokheld. Framkvæmdin fólst í að innrétta 1. og 2. hæð byggingarinnar fyrir sjúkrahússtarfsemi.
Nýtingaráætlun vegna Suðurálmu FSA var unnin 1993. Unnin var byggingaráætlun sem var grundvöllur framkvæmda fram að fokheldisstigi. Tafir urðu á að húsið yrði innréttað og varð þörf á að endurskoða nýtingu og hönnun. Hafin var innrétting 3. hæðar og þar tók barnadeild FSA formlega til starfa í desember 2000. Í framhaldi af því ákvað heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að fela FSA að ákvarða nýtingu annarra hæða í suðurálmu. Áform um legudeildir á 1. og 2. hæð höfðu verið lögð til hliðar en ákveðið að nýta hæðirnar fyrir aðra sjúkrahússtarfsemi. Hæð 0 yrði nýtt fyrir barna- og unglingageðlækningar en einnig fyrir aðra starfsemi, það er meinafræðideild, sjúkra- og iðjuþjálfun og kennslustofu. Leitað var til Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf. um gerð frumuppdrátta nýs fyrirkomulags. Frumathugun var lögð fram í febrúar 2004 og unnin var nýtingaráætlun 1. og 2. hæðar á grundvelli hennar.
Niðurstaða um fyrirkomulag var eftirfarandi:
Á 1. hæð speglunardeild, lyflækningadeild III (líknardeild) og móttaka sérfræðinga.
Á 2. hæð aðalskrifstofur, skrifstofur sérfræðinga og verkefnisstjóra, skrifstofur tölvudeildar ásamt tölvumiðstöð.
Við endurskoðun fyrirkomulags í suðurálmu var nýtt skipulag aðlagað hæðunum þannig að tekið var tillit til steyptra súlna og lóðréttra frárennslislagna frá barnadeild sem og rafmagnstaflna. Sjúkrastofur, rannsóknarrými, meðferðarrými og skrifstofur koma við útveggi að norðan og sunnan. Súlnaröð myndar aðra hlið ganganna að norðan og sunnan. Milli súlna koma glerkerfisveggir að stórum hluta til að fá dagsbirtu inn á ganginn. Vaktrými, móttökur, snyrtingar, geymslur og böð eru í miðjurými milli ganga og eru aðgengileg af báðum göngunum á sumum hæðum. Endar miðjurýmis eru bogalaga til að auðvelda umferðarflæði og mynda móttökurými. Þessi grunnhugmynd að skipulagi endurtekur sig á hverri hæð og er aðlöguð að starfsemi hverrar deildar. Allt efnis- og litaval miðast við þarfir starfseminnar og að skapa notalegt umhverfi fyrir sjúklinga og starfsfólk FSA.
Ákveðið var að innréttingar 1. og 2. hæðar yrðu ekki boðnar út í sitt hvoru lagi heldur saman þar sem það væri hagkvæmara.
Áætlunargerð
Hönnun á fyrri áföngum suðurálmu á árinu 1994 önnuðust upphaflega Húsameistari ríkisins, Teiknistofan Form hf., Verkfræðistofan Raftákn hf. og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf.
Endurskoðun arkitektahönnunar var falin Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks ehf. (AVH ehf.), VST hf. og Raftákni ehf. Hönnunarstjóri var Anton Örn Brynjarsson hjá AVH ehf., samræmingarhönnuður Fanney Hauksdóttir hjá AVH ehf., tengiliður við VST hf. var Þorsteinn Sigurðsson og tengiliður við Raftákn ehf. Jóhannes Axelsson.
Fyrirkomulag á 0., 1., og 2. hæð var endurskoðað en áður hafði 3. hæð suðurálmu verið innréttuð fyrir barnadeild FSA. Eftir hönnun innréttinga á 0. hæð var hafin hönnun á innréttingum 1. og 2. hæðar á grundvelli frumathugunar og nýtingaráætlunar.
Hönnun þessa verks náði til innréttinga á 1. hæð suðurálmu fyrir speglunar- og lyfjadeild, ásamt göngudeild sérfræðinga og kapellu og á 2. hæð fyrir skrifstofur sjúkrahússins. Hluti af núverandi starfsemi verður flutt í nýbygginguna. Hönnunin náði einnig til tengiálmu, brunahönnunar og stækkunar vatnsúða- og loftræsikerfa.
Um frágang innanhúss segir meðal annars í hönnunargögnum, að innveggir verði trefjagifsveggir og glerkerfisveggir, loft séu kerfisloft úr stáli með harðpressaðri steinull. Innihurðir og innréttingar eru klæddar mahognyspæni en hurðarkarmar úr áli með yfirfelldu dyrafóðri, sumar hurðir þó úr gleri eða stáli. Gólf eru lögð vinyldúk.
Fjármálaráðuneytið óskaði eftir umsögn FSR um áætlunargerð og var henni lokið í desember 2005. Heildarkostnaðaráætlun FSR á verðlagi í desember 2005 er 264,5 milljónir króna (m.kr.), þar af er framkvæmdakostnaður áætlaður tæplega 200 m.kr. að meðtöldum samningsgreiðslum, verðlagsbreytingum og aukaverkum.
Fjármögnunaráætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis miðast við að fjármagna verkið með fjárveitingum af fjárlögum.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmd við innréttingar 1. og 2. hæðar suðurálmu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) var boðin út í desember 2005. Suðurálman er fimm hæða ásamt kjallara með múrhúðun utan á steyptum veggjum og einangrun að innan. Hæðirnar eru um 800 m² hvor hæð að meðtöldum austursvölum, samtals um 1.600 m². Auk þess náði verkið til endurbóta á núverandi tengibyggingu á um 370 m² svæði á báðum hæðum og uppsetning vatnsúðakerfis á um 300 m² svæði á hvorri hæð. Þá var innifalið í verkinu að stækka bílastæði sunnan suðurálmu og ganga frá lóð austan bílastæðisins.
Verkið fólst meðal annars í uppsetningu nýrra léttra veggja, glerveggja, hurða, innréttinga, loftaefna, lagningu gólfefna og málun. Einnig í að leggja frárennslis-, neysluvatns-, hita-, loftræsi-, vatnsúða- og gaslagnir og að koma fyrir ásamt hreinlætistækjum. Innifalið var að leggja raflagnir, koma fyrir lampabúnaði og stjórnkerfi. Þá skuli loka gluggaopum og saga hurðargöt í álmuskilvegg að tengibyggingu og í útvegg að austursvölum. Á austursvölum komi timburgluggar í op og gengið var frá veggjum, loftum og gólfum.
Í tengibyggingu voru léttir veggir rifnir að hluta til og steyptur veggur við lyftustokk fjarlægður. Skipt var um kerfisloft og lýsingu, gólfdúkur endurnýjaður að hluta, lagnakerfum og loftræsilögnum breytt og aðlöguð breyttu skipulagi og sett var upp vatnsúðakerfi.
Helstu magntölur: Léttir veggir 1.300 m² (fermetrar), glerkerfisveggir 200 m², niðurtekin loft 1.700 m², dúkalögn 1.500 m², málun 3.000 m², hurðir 60 stykki, pípulagnir 3.000 metrar (m), loftstokkar 600 m, hreinlætistæki 100 stykki, strengir 6.650 m, strengir Cat 5 9.000 m og lampar 840 stykki. Samkvæmt útboðsgögnum skyldi verkinu vera að fullu lokið 20. mars 2007, skiladagur 2. hæðar 6. febrúar 2007 og bílastæði 18. september 2006.
Eftirlit fyrir FSR hafði Verkfræðistofa Norðurlands ehf. Eftirlitsmaður var Bragi Sigurðsson.
Verkið var auglýst til útboðs sunnudaginn 18. desember 2005. Tilboð voru opnuð 24. janúar 2006. Þann 14. febrúar 2006 var tekið tilboði P.A. Byggingarverktaka að fjárhæð 178.494.858 kr. sem var 90,9% af kostnaðaráætlun.
Framkvæmdum við 2. hæð lauk um það bil á áætluðum tíma í, það er 28. febrúar 2007, og var 2. hæð tekin í notkun í framhaldi af því. Tafir urðu á framkvæmdum við 1. hæð en þeim lauk 26. september 2007 (lokaúttekt).
Skilamat
Skilamat um Sjúkrahúsið á Akureyri, innrétting 1. og 2. hæðar og suðurálmu í heild, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdir voru unnar á árunum 2006 til 2007. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.