Ofanflóðavarnir Fáskrúðsfirði - Nýjabæjarlækur
Við Nýjabæjarlæk ofan við Búðir
- Verkkaupi: Stofnanir
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 633 1737
- Verkefnastjóri: Þorvaldur S. Jónsson og Sigurður Hlöðversson
Um verkefnið
Verkefninu er lokið. Verkið fólst í að reisa mannvirki í farvegi Nýjabæjarlæks ofan skólamiðstöðvar og byggðar við Skólabrekku og Hlíðarveg. Varnarvirkið samanstendur í megindráttum af grjótstíflu, leiðigarði og þvergildru.
Verkkaupar voru Fjarðarbyggð og ofanflóðasjóður sem er á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
Frumathugun
Frumathugunin Ofanflóðavarnir, Búðir í Fáskrúðsfirði, dagsett í apríl 2012, var unnin af Verkís hf. fyrir Fjarðabyggð. Tengiliður við Fjarðabyggð var Jóhann Edvald Benediktsson mannvirkjafulltrúi og tengiliður ofanflóðasjóðs/umhverfis- og auðlindaráðuneytis var Hafsteinn Pálsson verkfræðingur. Höfundar frumathugunarinnar voru Kristín Martha Hákonardóttir, verkefnastjóri Verkís hf. við gerð frumathugunar, auk Hrafnkels Más Stefánssonar, Pálma Ragnars Pálmasonar og Snorra Gíslasonar hjá Verkís hf. Samstarfsaðili var Aðalheiður Kristjánsdóttir hjá Landmótun ehf.
Frumathugunin byggir á samþykktu hættumati fyrir Fáskrúðsfjörð þar sem möguleiki er talinn á stórum krapaflóðum úr gilskorningum í Nýjabæjarlæk. Þar standa fimm íbúðarhús við farveginn á hættusvæði C og eru forsendur frumathugunar að verja þessa byggð. Lagt var til að reistir yrðu varnargarðar í gilsmynni annars vegar og neðan þess hins vegar til þess að stöðva flóð ofan byggðar. Í gilsmynni við klettahaft í 110 metra hæð yfir sjávarmáli yrði um 6 metra hár og 900 m³ (rúmmetra) brattur þvergarður úr stórgrýti. Neðan gils taki við um 200 metra langur og 3–7 metra hár leiðigarður sem beini krapaflóði og vatni Nýjabæjarlækjar inn að 7 metra hárri og brattri þvergildru vestan lækjarins í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli.
Rýmd leiðigarðs og þvergildru er 7.000 m³ (rúmmetrar). Báðir garðar verði byggðir upp úr jarðvegi og brattur hluti þvergildru byggður upp með jarðvegsstyrkingakerfi. Læk verði veitt um ræsi í gegnum þvergildru niður í Nýjabæjarlæk neðar. Núverandi lækjarfarvegur við Skólabrekku verði opnaður niður að Hlíðargötu, hreinsaður og rofvarinn og bakkar hans hækkaðir að íbúðarhúsum við Skólabrekku. Neðan við þvergildru verði um 2ja metra háar jarðvegsmanir ofan við skóla og íþróttavöll og stór grjót á dreif. Land verði þar mótað með halla niður að Nýjabæjarlæk. Tillögurnar miða að því að uppfylla kröfur um öryggi samkvæmt reglugerð og eru drög að jafnáhættulínum, að teknu tilliti til varnarvirkja, sett fram í skýrslunni.
Áætlunargerð
Verkhönnun vegna ofanflóðavarna á Fáskrúðsfirði var unnin á árinu 2012 á grundvelli framangreindrar frumathugunar. Að verkhönnun vann Verkfræðistofa Austurlands ehf., tengiliður Óli Grétar Metúsalemsson, og Landmótun ehf., tengiliður Aðalheiður Kristjánsdóttir. Eins og áður hefur komið fram fólst framkvæmdin í gerð ofanflóðavarna í og við farveg Nýjabæjarlækjar fyrir ofan Búðir á Fáskrúðsfirði. Framkvæmdir þessar samanstanda í megindráttum af grjótstíflu, leiðigarði og þvergildru. Í útboðs- og samingsskilmálum segir í lauslegri lýsingu um verkið:
Grjótstíflan sem er efst verður byggð í gilsmynni við klettahaft í 110 metra hæð. Stíflan verður um 15 metrar að lengd og 6 metra há og byggð úr stórgrýti með stálteinum til styrkingar. Stíflan verður með drenerandi grjóthleðslu og yfirfalli við hliðina sem hefur verið fleigað í klöpp.
Leiðigarður verður byggður neðan grjótstíflu 200 metra langur í 106 til 57 metra hæð yfir sjó. Garðurinn verður 3–7 metra hár byggður að mestu úr skriðuefni. Þvergildra verður byggð í framhaldi leiðigarðs í um 56 metra hæð og er lengd gildru um 80 metrar. Um miðbikið verður gildran 7 metra há, byggð úr skriðuefni og grjóti. Gildran verður brött flóðmegin 1:0,25 og byggð með jarðvegsstyrkingarkerfi.
Aðkomuvegir verða lagðir til austurs frá línuvegi. Annar að grjótstíflu og hinn að þvergildru. Farvegur Nýjabæjarlækjar mun verða í gegnum grófa fyllingu grjótstíflunnar. Lækurinn mun renna ofan leiðigarðsins að þvergildrunni og í gegnum hana í 1,5 m sveru ræsi. Á þvergildrunni verður 2 metra breitt yfirfall. Rofvarinn lækjarfarvegur verður mótaður milli ræsis undir þvergildru og nýs ræsis meðfram Skólabrekku með inntak rétt fyrir ofan stíginn frá Skólabrekku. Ræsið verður lagt og tengt inn á núverandi lögn á lóð Skólabrekku 1 niður undir Hlíðargötu.
Land neðan þvergildru verður mótað, jarðvegsmanir koma ofan við skóla og íþróttavöll og meðfram lóðum við Skólabrekku með halla að nýjum farvegi Nýjabæjarlækjar. Ennfremur mun áðurnefnd vistmótun felast í gerð göngustíga, „skólarjóðurs“, tveggja göngubrúa og áningarstaðar. Stórgrýti verður komið smekklega fyrir á svæðinu.
Umsjón með verkefninu fyrir FSR á undirbúningsstigum var Guðmundur Pálsson og er jafnframt tengiliður FSR við umhverfis- og auðlindaráðuneytið í verkefnum ofanflóðavarna.
FSR vann umsögn um áætlunargerð fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Fáskrúðsfirði voru auglýstar til útboðs laugardaginn 12. janúar 2013.
Verkið fólst í að reisa mannvirki í farvegi Nýjabæjarlæks ofan skólamiðstöðvar og byggðar við Skólabrekku og Hlíðarveg. Varnarvirkið samanstendur í megindráttum af grjótstíflu, leiðigarði og þvergildru. Grjótstíflan sem stendur í 110 metra hæð yfir sjávarmáli er um 15 metra á lengd og 6 metra há. Leiðigarður neðan grjótstíflu er um 200 metra langur og 3–7 metra hár. Neðst er þvergildran í framhaldi leiðigarðs sem er um 80 metrar á lengd og um 7 metrar á hæð um miðbikið. Einnig felst í verkinu gerð vinnuvegar, varanlegra vegslóða og gangstíga. Jafnframt gerð drenskurða, lækjarfarvega, lagning ræsa, smíði göngubrúa og setbekkja og jöfnun yfirborðs og ýmiss konar frágangur.
Helstu magntölur eru:
Grjótstífla:
- Klapparsprengingar / fleygun 650 m³
- Stórgrýti: flokkun / flutningur 1.200 tonn
- Frágangur stórgrýtis í stíflu 550 m³
Leiðigarður – þvergildra:
- Sprengigröftur 2.800 m³
- Gröftur/tilfærsla skriðuefnis 7.500 m³
- Stoðfyllingar 2.100 m³
- Styrkingakerfi – uppsetning 415 m²
- Vegfyllingar úr skeringum 1.500 m³
- Þökulagning 1.600 m²
- Verkinu skal vera að fullu lokið í ágúst 2014.
Tilboð voru opnuð 26. febrúar 2013. Tilboði verktakans Þ.S. verktakar ehf. var tekið þann 12. apríl 2013. Það var 89.981.350 krónur eða 122,70% af kostnaðaráætlun sem var 73.334.000 krónur. Verkið hófst um miðjan apríl 2013 og því lauk um miðjan ágúst 2014. Verklokaúttekt var 11. september 2014.