Snjóflóðavarnir í Bíldudal
- Verkkaupi: Stofnanir
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 633 1751
- Verkefnastjóri: Sigurður Hlöðversson
Um verkefnið
Framkvæmdum við snjóflóðavarnir í Búðargili á Bíldudal er lokið. Framkvæmdirnar náðu til þess að hlaða og fylla í 300 metra langan leiðigarð og grafa rennu norðan hans og að færa læk sem rann til suðurs úr Búðargili í farveg í sjóflóðarásinni og í ræsum gegnum Tjarnarbraut og Lönguhlíð, svo og leggja vegarslóða meðfram fláafæti leiðigarðs. Einnig fólst verkið í landmótun og yfirborðsfrágangi, svo sem tjörnum, stígum, göngubrú, bílastæði, girðingu á brún brattasta hluta leiðigarðs, sáningu og plöntun.
Verkkaupar voru Vesturbyggð og ofanflóðasjóður á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Umsjón með framkvæmdunum hafði Framkvæmdasýsla ríkisins og var verkefnastjóri FSR Sigurður Hlöðversson.
Frumathugun
Frumathugun vann Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. samstarfsaðilar Pétur Jónsson, Landark og Peter Sampl, AVL, Austurríki. Verktaki var KNH ehf. (Kubbur + Norðurtak + Höttur).
Frumathugunin var gefin út í nóvember 2005. Þar er sett fram tillaga að snjóflóðavörnum fyrir íbúðarbyggð undir Búðargili á Bíldudal. Tillagan felur í sér að byggður verði leiðigarður til að taka við flóðum úr gilinu og beina þeim norður í gegnum byggðina og út í sjó. Efni í garðinn er tekið úr aurkeilu neðan gilsins og með efnistökunni formuð renna fyrir snjóflóð meðfram garðinum. Jafnframt þurfti að kaupa upp nokkur hús á því svæði þar sem snjóflóðunum verður beint niður í gegnum byggðina. Garðurinn mun einnig taka við krapaflóðum og aurflóðum úr gilinu. Með þessu móti er byggðin neðan gilsins, sem nú er öll innan hættusvæða, varin gagnvart ofnaflóðum, að frátöldum þeim húsum sem þarf að kaupa upp í tengslum við byggingu garðsins. Talið er að leiðigarðurinn verji 53 eignir gagnvart ofanflóðum úr Búðargili. Vegna plássleysis í gilkjaftinum var lagt til að að efsti hluti garðsins yrði byggður brattur flóðmegin með fláa 4:1 sem minnki í 1:1,5 neðar og að flái hlémegin yrði 1:1,7–4,0.
Áætlunargerð
Meginhluti undirbúnings í verkefnum snjóflóðavarna er unnin á stigi frumathugunar en til fullnaðarhönnunar voru fengnar Verkfræðistofa Norðurlands og Landark. Hjá Verkfræðistofu Norðurlands vann Kristinn Magnússon verkfræðingur að hönnuninni og hjá Landark Pétur Jónsson landslagsarkitekt.
Verkefnið náði til hönnunar snjóflóðavarna í Búðargili, annars vegar 300 m leiðigarður sunnan við Búðargilið og hins vegar 50 m leiðigarður neðst og nyrst í rásinni. Um það bil helmingur lengri garðsins flokkast sem brattur garður. Fyrstu 160 m eru jarðvegsgarður með halla 1:1,5 að rennu, hæstur 17,5 m. Halli hlémegin á allri lengd garðsins er 1:2 eða flatari. Frá stöð 160 til 210 er aðlögunarkafli milli jarðvegsgarðs og netgrindagarðs, frá stöð 210 er allt að 17 m há fylling byggð með hjálp svokallaðra netgrinda. Sá kafli sem byggður er með netgrindum hefur halla 1:0,25 eða um 76° og jarðvegshlutinn með halla 1:1,5.
Í verkinu felst einnig að leggja vegslóða meðfram fláafætigarði rofverja lækjarfarveg að hluta niður eftir snjóflóðarennunni, koma fyrir tveimur 150 cm vegræsun undir Lönguhlíð og Tjarnargötu.
Yfirborðsfrágangur og landmótun felst í fyllingu í malarstíga, hellulögn og grjóthleðslu veggjar á útsýnispalli, mótun tjarna, byggingu brúar yfir lækjarfarveg, sáningu og uppgræðslu á framkvæmdasvæðinu.
Heildarkostnaðaráætlun FSR, í febrúar 2008, var 198 m.kr., þar með talinn áætlaður kostnaður við verkframkvæmd (samningsgreiðslur 151 m.kr., innkaup á netgrindum 13 m.kr., verðlagsbreytingar og aukaverk), ráðgjöf, umsjón og eftirlit.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd Vesturbyggðar, óskaði eftir tilboðum í framkvæmdir við snjóflóðavarnir á Bíldudal. Verkið fól í sér að hlaða og fylla í leiðigarð og grafa rennu norðan hans. Færa læk sem nú rennur til suðurs úr Búðargili í farveg í sjóflóðarásinni og í ræsum gegnum Tjarnarbraut og Lönguhlíð og leggja vegarslóða meðfram fláafæti leiðigarðs. Einnig fólst verkið í landmótun og yfirborðsfrágangi, svo sem tjörnum, stígum, göngubrú, bílastæði, girðingu á brún brattasta hluta leiðigarðs, sáningu og plöntun. Verktaki skal leggja til allt efni vegna þessarar framkvæmdar, nema netgrindur.
Helstu magntölur voru skering, um 91.000 rúmmetrar (m³), unnin fylling 20.000 m³, fláafleygar 65.000 m³, netgrindur, 1.700 fermetrar (m²), sáning og áburðardreifing 55.000 m².
Gert var ráð fyrir að framkvæmdum lyki 1. ágúst 2009, sáningu og áburðargjöf skyldi þó lokið eigi síðar en 1. ágúst 2010.
Framkvæmdin var boðin út og voru tilboð opnuð 31. mars 2008. Tilboði KNH ehf. að upphæð 165.619.900 krónur , sem var 2% yfir kostnaðaráætlun, var tekið 26. maí 2008. Verktakinn KNH ehf. vann að framkvæmdunum.
Skilamat
Skilamat um snjóflóðavarnir í Bíldudal var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á árunum 2008 til 2010. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.