Snjóflóðavarnir Patreksfirði, þvergarður við Klif
- Verkkaupi: Stofnanir
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 633 1752
- Verkefnastjóri: Þorvaldur St. Jónsson
Um verkefnið
Framkvæmdum við snjóflóðavarnir á Patreksfirði sem ná til þvergarðs við Klif, ofan við grunnskóla, kyndistöð og sjúkrahús er lokið.
Verkið var boðið út sumarið 2012. Verkkaupar voru Vesturbyggð og ofanflóðasjóður á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Umsjón hafði Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR), tengiliður FSR við ráðuneytið var Guðmundur Pálsson og verkefnastjóri FSR var Þorvaldur St. Jónsson.
Frumathugun
Frumathugun vann Verkfræðistofan Verkís í samstarfi við Landmótun sf. Verkhönnun unnu EFLA hf. og Landmótun ehf. Verktaki var Glaumur ehf. Frumathugun var unnin af Verkís í júní 2011 fyrir verkkaupa, Vesturbyggð. Tengiliðir voru Ásthildur Sturludóttir sveitarstjóri, Ármann Halldórsson, forstöðumaður tæknideildar, og Hafsteinn Pálsson verkfræðingur, tengiliður við ofanflóðasjóð á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis.
Höfundar frumathugunar voru Hallgrímur D. Indriðason og Kristín Martha Hákonardóttir, sem var jafnframt verkefnastjóri þessarar athugunar. Samstarfsaðili var Landmótun sf. Frumathugunin byggir á forathugun frá árinu 2003. Í samræmi við forathugun er lagt til að byggður verði 250 metra langur og 10–12 metra hár þvergarður ofan grunnskóla, kyndistöðvar og sjúkrahús. Byggingarnar standa allar innan hættusvæðis C á austanverðu svæðinu við Klif. Enn fremur er lagt til að settar verði upp snjósöfnunargrindur á fjallinu ofan upptakasvæða snjóflóða til þess að draga úr hættu á snjósöfnun í hlíðina og auka þannig öryggi garðsins gagnvart snjóflóðum.
Náttúrustofa Vestfjarða gerði fornleifakönnun á um 4 hektara svæði í landi Geirseyrar við Patreksfjörð í september 2011. Umrætt svæði er grýtt hlíð fyrir ofan sjúkrahúsið og teygir sig til beggja hliða. Gerð var nákvæm fornleifaskráning á áðurnefndu svæði að beiðni Vesturbyggðar og mun hluti fornleifa raskast við fyrirhugaðar framkvæmdir. Uppgröftur ofan varnargarðsins verður nýttur við uppbyggingu hans. Skering ofan þvergarðs var mótuð og löguð að óhreyfðu landi eins og kostur var en ofan skeringa er fjallshlíðin misbrött og klettar og klettanibbur standa upp úr skriðunni á stöku stað. Framhlið garðsins (flóðmegin) er brött (1:0,25) til þess að hámarka virkni garðsins. Afar þröngt er um garðinn á umræddu svæði. Fyrir vikið er gert ráð fyrir að halli fláafyllingar verði hámarkaður miðað við væntanlega stæðni fyllingaefnis eða 1:1,5. Þrátt fyrir það verður einnig nauðsynlegt að byggja neðsta hluta fláafótar brattan ofan við sjúkrahúsið og að hluta til ofan við grunnskólann. Er slíkt í samræmi við tillögur sem settar voru fram í forathugun (Gunnar Guðni Tómasson, 2003). Garðurinn ver sjö byggingar sem standa innan hættusvæða C og B gegn ofanflóðum úr hlíð Brellna. Eignirnar eru allar mikilvægar fyrir byggðina; grunnskóli, kyndistöð og sjúkrahús innan hættusvæðis C og íþróttahús/sundlaug, skóli og kirkja innan hættusvæðis B. Heildarverðmæti eigna innan núverandi hættusvæða B og C sem garðurinn ver er 271 m.kr. miðað við fasteignamat. Kostnaður við þvergarð og landmótun var áætlaður um 170 m.kr.
Áætlunargerð
Til verkhönnunar var fengin með forvali verkfræðistofan Efla ehf. og til samstarfs vegna landslagshönnunar Landmótun ehf. Unnin var fullnaðarhönnun til útboðs á fyrri hluta ársins 2012. Tengiliðir EFLU vegna verkhönnunar voru Jón Skúli Indriðason og Hjálmar Skarphéðinsson og fyrir Landmótun Aðalheiður Skarphéðinsdóttir.
Hönnunin náði til snjóflóðavarnargarðs (þvergarðs) ofan við grunnskóla, kyndistöð og sjúkrahús á Patreksfirði. Garðurinn er um 300 metra langur, beinn nema lítið eitt bogadreginn til bláendanna, og liggur nánast samsíða firðinum (norðvestur-suðaustur). Virk hæð garðsins er 10–12 metrar, lægri að austanverðu en hækkar eftir því sem vestar dregur. Hæð núverandi lands í garðstæðinu er um 25–30 metrar yfir sjávarmáli og landhæð efst í skeringarsvæði er um 55–60 metrar yfir sjávarmáli. Landhallinn á svæðinu er breytilegur, frá því að vera ca 1:5 á svæði garðsins upp í að vera mjög brattur eða ca 1:3 efst í skeringarsvæði garðsins. Hlið garðsins flóðmegin er byggð upp með styrkingarkerfi og er bratti þess hluta 4:1. Undir styrkta hlutanum er jarðvegsskipt niður á fastan botn. Flái garðsins hlémegin er breytilegur en mestur 1:1,5. Neðst í fláanum hlémegin verða formaðir stallar úr jarðhólfum til að þrengja ekki um of að byggingunum sem liggja rétt neðan við garðtána. Garðurinn er 3 metra breiður í toppinn.
Í útboðsgögnum kemur einnig fram að innifalið í verkinu sé lagning 600 metra langs vegslóða frá framkvæmdasvæði ofan bæjar að athafnasvæði verktaka, þ.e. aðstöðu fyrir verktaka og svæði fyrir ýmsa efnisvinnslu. Vegna lagningu vegslóða þarf að leggja ræsi í farveg Litladalsár. Ennfremur þarf að leggja stuttan vegslóða og tvöfalt (2x1.500 mm) ræsi í farveg Mikladalsár vegna flutnings efnis frá Raknadalshlíð. Frá þvergarði og niður fyrir Aðalstræti verður lagt um 200 metra langt ræsi með þvermáli 400 mm og einnig nokkur minni ræsi þar sem fyrirhugaður vegslóði liggur yfir lækjar- og/eða árfarvegi. Ennfremur verður byggt upp fræðslusvæði í hliðum og fláa varnargarðs ofan grunnskólans. Verkefni tengd eru undirbúningur gróðurs fyrir flutning trjágróðurs, stígagerð, lýsing, nýting úr trjám við gerð bekkja og fleira.
FSR vann, að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, umsögn um áætlunargerð. Verkefnið er fjármagnað 90% af ofanflóðasjóði og 10% af Vesturbyggð.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdirnar voru auglýstar til útboðs 21. júlí 2012. Í útboðsauglýsingu kom fram að Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd Vesturbyggðar og ofanflóðasjóðs, óski eftir tilboðum í verkið Snjóflóðavarnir í Vesturbyggð – Þvergarður á Patreksfirði. Verkið fólst í að reisa snjóflóðavarnargarð (þvergarð) ofan við grunnskóla, kyndistöð og sjúkrahús á Patreksfirði. Umræddur varnargarður er um 300 metra langur og 10–12 metra hár. Í verkinu fólst einnig mótun yfirborðs skeringa flóðmegin við garða og uppsetning jarðhólfa í fláum hlémegin. Einnig fólst í verkinu gerð vinnuvegar, varanlegra vegslóða, gangstíga, og uppsetning á grjóthleðslum. Jafnframt gerð drenskurða, lækjarfarvega, lagningu ræsa, flutnings trjágróðurs, uppsetningar lýsingar, smíði setbekkja, jöfnun yfirborðs og ýmiss konar frágangur. Verkinu átti að vera að fullu lokið í september 2014.
Framkvæmdirnar voru boðnar út og voru tilboð opnuð 28. ágúst 2012. Kostnaðaráætlun var 247.827.500 krónur. Tekið var tilboði Verktakafélagsins Glaums ehf. þann 29. nóvember 2012 sem var 187.773.000 krónur, 75,77% af kostnaðaráætlun.
Skilamat
Skilamat um snjóflóðavarnir á Patreksfirði, Klif, var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á árunum 2013 til 2015. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.