Ofanflóðavarnir Patreksfirði - Urðir
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 633 1754
- Tímaáætlun: Áætlað er að verkinu ljúki 2026
Um verkefnið
Verkefnið nær yfir ofanflóðavarnir ofan Urðargötu á Patreksfirði. Verkkaupi er Vesturbyggð.
Frumathugun
Frumathugunin Ofanflóðavarnir í Vesturbyggð, Urðargata á Patreksfirði, dagsett í desember 2016, var unnin af Verkís hf. í samstarfi við Landmótun sf., þær Aðalheiði E. Kristjánsdóttur og Þórhildi Þórhallsdóttur, landslagsarkitekta FÍLA, WSL-Institut für Schnee- und Lawinenforschung SLF, Sviss, og Veðurstofu Íslands. Höfundar frumathugunarinnar voru Kristín Martha Hákonardóttir, verkefnastjóri Verkís hf. við gerð frumathugunar, auk Áka Thoroddsen, Hallgríms Daða Indriðasonar og Snorra Gíslasonar.
Í frumathuguninni miða tillögur að vörnum að því að uppfylla kröfur um öryggi samkvæmt reglugerð. Öll byggð ofan hafnarinnar, á um 350 metra breiðu svæði, stendur á hættusvæði C. Við Urðargötu og neðan götunnar standa 23 hús á hættusvæði C og tíu hús á hættusvæði B. Við Aðalstræti, austan Urðargötu, standa 19 hús á hættusvæði B. Staðsetning jafnáhættulína endurspeglar hættu á stórum snjóflóðum úr meginupptakasvæðinu ofan hafnar, meðalstórum flóðum austan þess, ofan Urðargötu og litlum flóðum ofan Aðalstrætis. Hætta vegna grjóthruns á svæðinu er talin meiri en vegna skriðufalla. Hættan er talin fylgja jafnáhættulínu CB.
Lagt er til að reisa um 350 metra langan snjóflóðavarnargarð ofan og við Urðargötu. Austurhluti garðsins er 240 metra langur, 10–15,5 metra hár þvergarður ofan Urðargötu. Vesturhlutinn er 8,5–13,5 metra hár leiðigarður. Lagt er til að snjóflóðavarnargarðurinn verði byggður úr efni úr skeringum við garðinn og jarðvegsstyrkingakerfi verði notuð til þess að tryggja bratta flóðhliða (flái 1:0,25, lóðrétt:lárétt). Einnig er lagt til að vatnsrás ofan Aðalstrætis verði dýpkuð og bakki hækkaður, þannig að aurflóð stöðvist ofan byggðar og hætta á grjóthruni niður að íbúðarhúsum minnki. Aurvörnin tengist snjóflóðagarði við Urðargötu. Jafnframt tengist skeringarsvæði leiðigarðsins fyrirhuguðum flóðfarvegi vestan hans. Til þess að auka öryggi varnargarðanna er lagt til að snjósöfnunargrindum verði komið fyrir uppi á fjallstoppi til að draga úr snjósöfnun inn í upptakasvæði neðan fjallsbrúnar og vindkljúfar verði á fjallsbrún til þess að brjóta upp hengjur.
Heildarefnismagn í snjóflóðavarnargarð er 80.000 m3 og 15.000 m3 í aurvörn. Umframefnismagn úr skeringum er áætlað um 60.000 m3.
Kostnaður við ofanflóðavarnirnar er metinn um 500 m.kr., snjósöfnunargrindur og vindkljúfar um 350 m.kr. Heildarverðmæti varinna eigna á hættusvæðum B og C er 240 m.kr. miðað við fasteignamat ársins 2016. Brunabótamat sömu eigna er 1.044 m.kr. Við og neðan Aðalstræti standa 19 hús eftir óvarin á hættusvæði B. Verðmæti þeirra er 179 m.kr. samkvæmt fasteignamati ársins 2016 en 680 m.kr. samkvæmt brunabótamati.