Snjóflóðavarnir í Bolungarvík
- Verkkaupi: Stofnanir
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 633 1760
- Verkefnastjóri: Sigurður Hlöðversson
Um verkefnið
Framkvæmdum við snjóflóðavarnir í Bolungarvík er lokið.
Framkvæmdir hófust í júní 2008 og var um að ræða 710 metra langan varnargarð og átta keilur fyrir ofan byggðina, neðarlega í fjallinu Traðarhyrnu. Sumarið 2011 var aftur unnið að sprengingum og komið fyrir síðari hluta af grindum í garða og keilur. Byrjað var á yfirborðsvinnu í vesturenda stóra garðs og sáð grasfræjum. Eftir ákvörðun um viðbótarverk við svonefndan Austurgarð var unnið að því verki á árinu 2012.
Verkkaupar voru Bolungarvíkurkaupstaður og ofanflóðasjóður á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Frumathugun vann Verkfræðistofan Hnit hf. og síðar Orion Ráðgjöf ehf., einnig Norges Geotekniske Institutt (NGI). Mat á umhverfisáhrifum vann Náttúrustofa Vestfjarða, verkhönnun unnu Línuhönnun hf. verkfræðistofa (nú EFLA hf.) og Landmótun ehf. Verktaki var Ósafl sf.
Frumathugun
Fyrstu skref frumathugunar á vörnum gegn snjóflóðum í Bolungarvík, það er úr fjallinu Traðarhyrnu ofan Bolungarvíkur, var unnin á árunum 1998-1999 af Verkfræðistofunni Hnit hf. og Norges Geotekniske Institutt (NGI). Fyrir Hnit hf. vann Árni Jónsson verkfræðingur að frumathuguninni. Framhald varð á frumathugun á árinu 1999 og var unnin svonefnd Áfangaskýrsla 2 veturinn og vorið 1999 af Orion Ráðgjöf ehf. eftir að Árni Jónsson hóf störf hjá þeirri stofu og vann þar að verkefninu. Aðstoðarráðgjafar voru Erik Hestnes, snjóflóðasérfræðingur hjá NGI, og Sigurjón Hauksson, verkfræðingur á Verkfræðistofu Austurlands.
Í frumathugun voru skoðaðar eftirtaldir varnarkostir:
- Varnir með upptakastoðvirkjum.
- Engar varnir, það er að fjarlægja byggð eða beita rýmingu.
- Varnir með rás ofan byggðarinnar.
- Varnir með sambland af leiðigörðum og þvergörðum og kaupum og rýmingu á húsum.
- Beinar varnir stakra húsa.
Niðurstaða frumathugunar var að velja varnarkost 4, það er að byggja þvergarða og keilur (stutta þvergarða) svo og að kaupa og rífa nokkur hús.
Mat á umhverfisáhrifum snjóflóðavarna í Bolungarvík vann Náttúrustofa Vestfjarða. Matsáætlun var kynnt Skipulagsstofnun. Mat á umhverfisáhrifum, á grundvelli matsskýrslu, var afgreitt hjá Skipulagsstofnun 27. september 2007. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var „að fyrirhugaðar framkvæmdir við varnarvirki fyrir ofan byggðina í Bolungarvík muni hafa jákvæð áhrif á öryggi íbúa með tilliti til snjóflóðahættu miðað við núverandi aðstæður“. Enn fremur að „helstu neikvæð áhrif af framkvæmdum við varnarvirki í Bolungarvík verði áhrif á landslag og sjónræn áhrif, auk áhrifa á fornleifar og uppkaup 6 húsa og niðurrif þeirra.“
Fornleifarannsóknir vegna verkefnisins voru einnig unnar af Náttúrustofu Vestfjarða. Þar kom fram að meirihluti fornleifa bæjar og túns jarðarinnar Traðar fari forgörðum en aðrar fornleifar á framkvæmdasvæðinu væru ekki teljandi.
Að mati sveitarfélagsins var um tvo meginvalkosti að ræða. Annars vegar að kaupa upp hús í hluta bæjarins og halda áfram rýmingu á öðrum svæðum og hins vegar að byggja varnargarða. Í heildina séð væri ávinningur af framkvæmdinni svo mikill að neikvæð áhrif framkvæmdarinnar væru lítil eða hverfandi í því samhengi.
Sem mótvægisaðgerðir, til að minnka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, var lögð áhersla á landmótun, gróðursetningu og uppgræðslu.
Áætlunargerð
Meginhluti undirbúnings í verkefnum snjóflóðavarna er unnin á stigi frumathugunar en til fullnaðarhönnunar voru fengnar stofurnar Línuhönnun hf. verkfræðistofa (núverandi EFLA hf.) og Landmótun ehf. Hjá Línuhönnun, núverandi EFLU hf., vann Jóni Skúli Indriðasyni verkfræðingur að hönnuninni og hjá Landmótun Áslaug Traustadóttir landslagsarkitekt.
Verkefnið náði til hönnunar snjóflóðavarna í hlíðum Traðarkotshyrnu, annars vegar á þvergarði og hins vegar á keilum. Niðurstaða hönnunarinnar var að byggja annars vegar varnargarð, um það bil 710 m langan bogadreginn þvergarð ofan byggðarinnar, og hins vegar svonefndar keilur, 8 talsins sem byggðar voru ofan við þvergarðinn. Hlið garðsins að fjalli er brött efstu 14 metrana, með halla 6:1 sem reistur er með netgrindum og styrktri kjarnafyllingu. Miðhluti varnargarðsins er um 22 metra hár. Keilurnar eru 8 talsins og er halli bröttu hliðanna fjallsmegin 4:1. Bratta hliðin er reist með netgrindum og kjarnafyllingu eins og garðurinn. Við Dísarland eru 6 hús sem lenda inni í garðinum og þarf að rífa. Einnig voru hannaðir vegslóðar og göngustígar um svæðið.
Heildarkostnaðaráætlun FSR, í febrúar 2008, var 1.071 m.kr., þar með talinn áætlaður kostnaður við verkframkvæmd 961 m.kr. (samningsgreiðslur 850 m.kr., verðlagsbreytingar og aukaverk), ráðgjöf, umsjón og eftirlit.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdirnar voru boðnar út 24. febrúar 2008. Verkefnið felst í byggingu á annars vegar 710 metra löngum varnargarði og hins vegar svonefndum keilum. Garðinn og keilurnar voru byggðar úr jarðefnum sem voru fengin innan framkvæmdasvæðisins, bæði lausum efnum og efni úr bergskeringum. Sú hlið garðsins og keilnanna sem snýr móti fjalli var byggð upp með netgrindum og styrktum jarðvegi. Í verkinu var ennfremur innifalið rif mannvirkja, gerð vinnuvega, göngustíga og gerð drenskurða.
Helstu magntölur í útboðsgögnum:
Drenskurðir 950 m, klapparsprenging/fleygun 91.000 m³, bygging varnargarðs og keilna 370.000 m³, uppsetning netgrinda 11.000 m² og öryggisgirðing ofan á varnargarði 720 m.
Gert var ráð fyrir að verkið yrði unnið á árunum 2008-2010. Tilboð voru opnuð 16. apríl 2008. Tilboði Ósafls sf., að upphæð 566.781.402, og 77,93% af kostnaðaráætlun, var tekið 26. maí 2008.
Framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Bolungarvík hófust í júní 2008. Í september 2009 var bygging þvergarðsins komin vel á veg og vinna við keilur (stutta þvergarða) hafin.
Framkvæmdir hófust í júní 2008 og var um að ræða 710 metra langan varnargarð og átta keilur fyrir ofan byggðina, neðarlega í fjallinu Traðarhyrnu. Sumarið 2011 var aftur unnið að sprengingum og komið fyrir síðari hluta af grindum í garða og keilur. Byrjað var á yfirborðsvinnu í vesturenda stóra garðs og sáð grasfræi. Eftir ákvörðun um viðbótarverk við svonefndan Austurgarð var unnið að því verki á árinu 2012 og lauk þeim framkvæmdum nema grassáningu, sem er hluti mótvægisaðgerða vegna umhverfismats.
Hjá Ósafli sf. annaðist verkefnisstjórn Einar Hrafn Hjálmarsson og Leó Jónsson verkfræðingur en Reynir Þór Reynisson verkstjórn á verkstað.
Skilamat
Skilamat um snjóflóðavarnir í Bolungarvík var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Framkvæmdirnar voru unnar á tímabilinu júní 2008 til ágúst 2012. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.