Snjóflóðavarnir í Ísafjarðarbæ, Þvergarður við Kubba
- Verkkaupi: Stofnanir
- Staða: Verkefni lokið
- Verkefnisnúmer: 633 1716
- Verkefnastjóri: Hafsteinn S. Steinarsson
Um verkefnið
Framkvæmdum er lokið við þvergarð snjóflóðavarna í Ísafjarðarbæ í Holtahverfi neðan við fjallið Kubba. Reistur hefur verið þvergarður og unnið að landmótun. Verktaki hóf framkvæmdir í maí 2011 og var verkinu að mestu lokið í nóvember 2012. Árið 2013 var unnið að umhverfisbótum (mótvægisaðgerðum) sem fólust í mótun garðsins og umhverfis hans, yfirborðsfrágangi, gróðursetningu trjáa og grassáningu, svo og gerð útivistarsvæðis með göngustígum.
Verkkaupar voru Ísafjarðarbær og ofanflóðasjóður á vegum umhverfisráðuneytisins. Umsjón og eftirlit með framkvæmdunum hafði Framkvæmdasýsla ríkisins, tengiliður við ráðuneytið var Guðmundur Pálsson hjá FSR, verkefnastjóri var Hafsteinn S. Steinarsson. Frumathugun vann Verkís hf., matsáætlun Tækniþjónusta Vestfjarða ehf. Landslagsarkitekt var Landmótun ehf. Verkhönnun annaðist Efla verkfræðistofa hf. Verktaki var Geirnaglinn ehf.
Frumathugun
Frumathugun vegna snjóflóðavarna fyrir Holtahverfi undir Kubba var unnin af Verkís hf. fyrir Ísafjarðarbæ og lauk í apríl 2005. Skýrsluna unnu Flosi Sigurðsson, Gunnar Guðni Tómasson og Hallgrímur Daði Indriðason.
Markmið snjóflóðavarna er að tryggja öryggi íbúa en í hættumati frá apríl 2003 kemur fram að mörg íbúðarhús í Holtahverfi eru á hættusvæði. Í frumathugun kom fram að svæði fyrir varnir er þröngt milli byggðar og brekku. Niðurstaða frumathugunarinnar var að þörf væri á að reisa um 1.900 metra af stoðvirkjum í Bröttuhlíð í Kubba, og byggja brattan þvergarð sunnan fjölbýlishúsa við Stórholt, um 260 metrar að lengd, með virka hæð 12 til 18 metra.
Matsáætlun fyrir Snjóflóðavarnir í Holtahverfi, Ísafjarðarbæ, var unnin af Tækniþjónustu Vestfjarða ehf. í apríl 2005. Lögð var einnig fram skýrsla um mótvægisaðgerðir. Landslagsarkitekt sem kom að verkefninu var, eins og fyrr segir, Landmótun sf., tengiliður var Áslaug Traustadóttir. Að mati landslagsarkitekta mun þvergarðurinn hafa mikil sjónræn áhrif en möguleikar eru á mótvægisaðgerðum til að bæta ásýnd garðsins með mótun hans, uppgræðsla, skógrækt og gerð útivistarsvæðis með göngutengslum við byggðina.
Tengiliður verkkaupans Ísafjarðarbæjar á undirbúningsstigi var Halldór Halldórsson, þáverandi bæjarstjóri, og fyrir ofanflóðsjóð/ umhverfisráðuneyti Hafsteinn Pálsson. Verkefnastjóri Framkvæmdasýslunnar á stigi við frumathugunar var Guðmundur Pálsson.
Áætlunargerð
Að áætlunargerð var unnið á grundvelli frumathugunar. Ákveðið var að vinna að áætlunargerð (hönnun) þvergarðs en hönnun og framkvæmd stoðvirkja var frestað. Verkefnastjóri á stigi áætlunargerðar var Guðmundur Pálsson hjá Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR).
Gerð var verðkönnun vegna verkhönnunar þvergarðsins og tekið tilboði Eflu hf. Samningur við Eflu hf. verkfræðistofu um verkhönnunina var gerður í júní 2009. Tengiliður FSR við Eflu var Jón Skúli Indriðason. Landslagshönnun vann Landmótun sf., tengiliður við stofuna var Áslaug Traustadóttir.
Í útboðsgögnum segir meðal annars að verkið felist í að reisa snjóflóðavarnargarð á úthlaupssvæði snjóflóða úr Kubba. Um er að ræða þvergarð sem er um það bil 220 metra langur í toppinn. Í verkinu felst einnig mótun yfirborðs skeringa flóðmegin við garða. Einnig felst í verkinu gerð vinnuvega, varanlegra vegslóða, gangstíga og áningarstaða. Jafnframt gerð drenskurða, lækjarfarvega og vatnsrása, lagning ræsa, jöfnun yfirborðs og frágangur. Gert er ráð fyrir að lífrænn jarðvegur og laus jarðlög séu lögð til hliðar á tipp til síðari notkunar við landmótun, við og utan við garðana.
Í umsögn FSR um áætlunargerð kemur fram að heildarkostnaðaráætlun á verðlagi í janúar 2011 er 360,0 m.kr., þar af verkframkvæmd 327,7 m.kr. (meðtalið áætlaðar samningsgreiðslur, verðbreytingar og aukaverk), ráðgjöf svo og umsjón og eftirlit. Fjármögnun miðast við að Ísafjarðarbær greiði 10% af kostnaði sem er sameiginlegur í þessu verkefni og ofanflóðasjóður 90%.
Verkleg framkvæmd
Tengiliður verkkaupans Ísafjarðarbæjar á stigi verklegar framkvæmdar var Jóhann Birkir Helgason og fyrir ofanflóðsjóð/umhverfisráðuneyti Hafsteinn Pálsson. Verkefnastjóri við verklega framkvæmd hjá Framkvæmdasýslunni var í fyrstu Guðmundur Pálsson, frá janúar til apríl 2012, þá Sigurður Hlöðversson frá 11. apríl 2012, og loks Hafsteinn Steinarsson. Verkið var auglýst til útboðs 12. febrúar 2011. Þar segir meðal annars að Framkvæmdasýsla ríkisins, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og ofanflóðasjóðs, óski eftir tilboðum í verkið Snjóflóðavarnir á Ísafirði – Þvergarður undir Kubba. Þá eru meðal annars tilgreindar helstu magntölur:
Helstu magntölur | Magn | Eining |
---|---|---|
Upptaka gróðurþekju og jarðvegs | 32.000 | m2 |
Klapparsprengingar / fleygun | 42.500 | m3 |
Fylling í jöfnunarlag undir styrkta fyllingu garðs | 7.000 | m3 |
Styrkt fylling í garð | 31.000 | m3 |
Fylling í framhlið garðs | 3.950 | m3 |
Fylling í fláafleyga | 50.000 | m3 |
Styrkingarkerfi - efni | 4.000 | m2 |
Styrkingarkerfi - Uppsetning | 4.000 | m |
Göngustígar - Yfirborðslag | 1.100 | m2 |
Malbik á bílastæði og stíga | 440 | m2 |
Varanlegir vegslóðar | 150 | m |
Í útboðsauglýsingu segir að verkinu skuli vera að fullu lokið 31. september 2012. Tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum 22. mars 2011. Kostnaðaráætlun var 299.099.000 krónur. Niðurstaða útboðsins eftir yfirferð var að Geirnaglinn ehf. átti lægsta tilboð, 213.283.690 krónur sem er 71,31% af kostnaðaráætlun. Tekið var tilboði Geirnaglans ehf. 16. maí 2011.
Verkefnastjóri FSR var Hafsteinn Steinarsson. Sveinn D.K. Lyngmo frá Tækniþjónustu Vestfjarða aðstoðaði við eftirlit og eftirlitsmælingar. Verktaki var Geirnaglinn ehf., verkefnastjórn verktaka annaðist Magnús Geir Helgason, verkstjóri verktaka var Sævar Óli Hjörvarsson.
Verktaki hóf framkvæmdir í maí 2011. Settar voru upp vinnubúðir og unnið við lagningu ræsa, upptöku gróðurþekju og jarðvegs og byrjað á fyllingu í fláafleyg og losun bergskeringa. Á árinu 2012 var unnið áfram við lagningu ræsa og byggingu garðsins úr jarðefnum sem fengin eru innan framkvæmdasvæðisins, bæði lausu efni og efni sem losað er úr bergskeringum. Framhlið garðsins er nánast lóðréttur veggur (halli 4:1) byggður upp með svokölluðum netgrindum. Í júlí hafði verið byggður upp um 50% veggjarins.
Verktaki var Geirnaglinn ehf. en undirverktaki vegna jarðvinnu var Háfell ehf. Lokið verður við byggingu garðsins í nóvember 2012 og einnig frágang göngustíga og yfirborðsjöfnun á árinu 2012, ef veður leyfir. Verkefnastjórn verktaka annaðist Magnús Geir Helgason. Verkstjóri verktaka var Sævar Óli Hjörvarsson.
Stefnt er að því að síðar verði sérstakt verk um framhald á sáningu ásamt áburðargjöf og lagfæringum lóða við Stórholt.
Skilamat
Skilamat um snjóflóðavarnir á Ísafirði - Kubbi var unnið samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda. Verkefnið var unnið á árunum 2011-2013. Skilamatið og öll útgefin skilamöt/skilagreinar/skilablöð má finna á vef FSR undir Útgefið efni.