Arnarhvoll - endurbætur innanhúss 2. áfangi
1. og 2. hæð í vesturhluta
- Verkkaupi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
- Staða: Framkvæmd lokið
- Verkefnisnúmer: 509 0925
- Verkefnastjóri: Á stigi frumathugunar: Bjargey Björvinsdóttir. Á stigi áætlunargerðar: Gíslína Guðmundsdóttir. Á stigi verklegrar framkvæmdar: Ívar Már Markússon og Guðbjartur Á. Ólafsson
- Stærð mannvirkis: 710 fermetrar
- Tímaáætlun: Áætluð verklok 31. maí 2016
Um verkefnið
Unnið hefur verið að gagngerum endurbótum utanhúss og innanhúss síðastliðin ár á Arnarhvoli og gamla Hæstaréttarhúsinu.
Ítarleg ástandsskoðun á húsunum leiddi í ljós ríka þörf á endurbótum.
Endubætur innanhúss fela í sér að færa skipulag í nútímalegra horf og bæta úr bruna-, öryggis- og aðgangsmálum.
Í þessum áfanga er um að ræða 1. og 2. hæð í vesturhluta hússins, í Arnarhvoli, Ingólfsstræti í Reykjavík sem unnar voru á árunum 2015 til 2016.
Saga Arnarhvols
Arnarhvoll hefur þjónað ýmissi starfsemi á vegum ríkisins í hartnær 85 ár. Árið 1929 var í fjárlögum veitt heimild til þess að reisa á Arnarhólstúni byggingu sem hýsa skyldi opinberar skrifstofur. Brýn þörf þótti á þessu enda voru skrifstofur ríkisins dreifðar víða og oft í óhentugu leiguhúsnæði. Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins.
Húsið var upprunalega 428 fermetrar að grunnfleti, þrjár hæðir og kjallari. Fyrstu skrifstofurnar fluttu inn í Arnarhvol sumarið 1930. Fyrstu árin voru í húsinu m.a. Búnaðarbanki Íslands, Skipaútgerð ríkisins, lögreglan í Reykjavík, skrifstofur vegamálastjóra, teiknistofa húsameistara, skrifstofur landlæknis og tollstjórans í Reykjavík, skrifstofur lögmannsins í Reykjavík, Áfengisverslunar ríkisins, fræðslumálastjóra, Brunabótafélags Íslands, ríkisféhirðis og ríkisbókhaldsins og einnig skrifstofa gjaldkera Arnarhvols.
Á árunum 1945-1948 var byggt við Arnarhvol en þegar viðbyggingin var tilbúin taldist húsið vera 744 fermetrar að grunnfleti en gólfflöturinn samtals 3.700 fermetrar. Á sama tíma var hús Hæstaréttar byggt, sem er áfast seinni áfanga Arnarhvols.
Þegar viðbyggingin var tekin í notkun voru ráðuneyti jafnframt komin með aðsetur í Arnarhvoli, þar á meðal fjármála-, atvinnumála-, samgöngumála- og viðskiptaráðuneyti, en fyrstu ráðuneytin komu í húsið árið 1939. Fjármálaráðuneytið er það ráðuneyti sem lengst hefur haft aðsetur í Arnarhvoli en þar hefur ráðuneytið verið til húsa óslitið frá árinu 1939.
Endurbæturnar sem unnið er að á Arnarhvoli og gamla Hæstaréttarhúsinu eru þær heildstæðustu sem gerðar hafa verið frá því húsin voru byggð. Endurbætur á húsunum hófust í byrjun október 2013 í kjölfar auglýsts forvals og útboðs í framhaldi. Framkvæmdasýsla ríkisins hélt utan um hvoru tveggja.Kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna hljóðaði upp á 330,8 m.kr. á verðlagi ársins 2013 og er framvinda í samræmi við áætlanir. Áætluð verklok eru í lok júlí og er það einnig í samræmi við áætlanir.
Arnarhvoll er í húsverndarflokki 20. aldar bygginga með byggingarsögulegt, menningarlegt eða listrænt gildi. Ásýnd Arnarhvols og Hæstaréttarhússins frá Lækjartorgi, Hörpu og víðar er rótgróin borgarmyndinni og henni mikilvæg. Byggingarnar eru báðar teiknaðar í klassískum stíl og saman mynda þær heild í þyrpingu með Þjóðleikhúsinu, sem einnig var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, Safnahúsinu og nýlegu dómhúsi Hæstaréttar.
Þessar endurbætur munu auka verðskuldaða virðingu húsanna og prýða ásýnd borgarmyndarinnar.
Listamaðurinn Ríkarður Jónsson var fenginn til að gera veglega útidyrahurð á húsið, sem enn prýðir það. Í hurðina eru skornar tvær myndir og sýnir önnur Ingólf Arnarson varpa öndvegissúlum sínum fyrir borð. Á hinni má sjá þræla Ingólfs þegar þeir fundu öndvegissúlurnar og er Esjan í baksýn.
Upplýsingar fengnar af vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Frumathugun
Frumathugun vegna heildarendurbóta á Arnarhvoli, bæði innanhúss og utan, var unnin árið 2012 af arkitektastofunni Glámu/Kím. Í framhaldi af þeirri frumathugun gaf FSR út frumathugun árið 2013 sem byggð var á frumathugun Glámu/Kím og ber hún nafnið: Arnarhvoll – endurnýjun húsnæðis (utan og innan).
Áætlunargerð
Fjármála- og efnahagsráðuneytið heimilaði, í desember 2015, að hefja mætti forhönnun á verkefninu og eftir samþykki hennar að hefja mætti áætlunargerð fyrir umrædda framkvæmd.
Ákveðið var af verkkaupa að við áætlunargerð endurbóta og breytinga innanhúss, í samræmi við upprunalega ástandskönnun, þá yrði framkvæmdum áfangaskipt til að minnka umfang framkvæmda hverju sinni í húsinu. Fyrsti áfangi framkvæmda voru endurbætur utanhúss, verknúmer og skilamat 509 0922. Í fyrsta áfanga innanhússframkvæmda, verknúmer og skilamat 509 0923/24, var tekin fyrir efsta hæð (3. hæð) vesturhluta hússins, svokallaður ráðherragangur, ásamt snyrtikjörnum allra hæða og lyfta var sett í húsið. Í þeim áfanga sem hér er fjallað um, 2. áfangi innanhússendurbóta og breytinga, verknúmer 509 0925, voru gerðar endurbætur á 1. og 2. hæð vesturhluta Arnarhvols. Gláma/Kím Arkitektar, sem unnið höfðu frumathugun fyrir ráðuneytið, ásamt hönnun endurbóta, bæði utanhúss og 1. áfanga innanhúss framkvæmda, voru fengnir til verkefnisins, enda var umfang þess undir útboðsmörkum þjónustu. Sama á við um verkfræðihönnun þessa áfanga sem var í höndum EFLU verkfræðistofu eins og fyrri áfangar.
Verkleg framkvæmd
Heildarkostnaðaráætlun var 176,4 m.kr. Þann 9. febrúar 2016 var tilboði Sérverk ehf. að fjárhæð 137.918.876 kr. með vsk. tekið, sem var 91,82% af kostnaðaráætlun. Verklokaúttekt FSR og lokaúttekt byggingarfulltrúa fór fram 12. desember 2016. Ábyrgðarúttekt fór fram 9. febrúar 2018.