Alþingi - nýbygging skrifstofa á Alþingisreit
- Verkkaupi: Alþingi
- Staða: Framkvæmd lokið
- Verkefnisnúmer: 600 1022
- Verkefnastjóri: Ármann Óskar Sigurðsson
- Stærð mannvirkis: 6000 fermetrar
- Tímaáætlun: Áætluð verklok 2023
- Áætlaður kostnaður: 4.400 milljónir
Um verkefnið
Þarfagreining og frumathugun um húsnæðisþörf Alþingis var unnin af Framkvæmdasýslunni 2015. Niðurstaðan var sú að Alþingi þarfnaðist um 4.500 m² skrifstofubyggingar og um 1.200 m² bílakjallara í samræmi við skipulag svæðisins.
Frumathugun
Alþingi fól Framkvæmdasýslu ríkisins að gera frumathugun sem er fyrsti áfangi í ferli opinberra framkvæmda. Frumathugun var gefin út í janúar 2016 að undangenginni þarfagreiningu sem unnin var í samvinnu við verkkaupa og Sigurð Einarsson arkitekt hjá Batteríinu Arkitektar ehf. Niðurstöður frumathugunar eru eftirfarandi:
- Mælt er með því að ráðist verði í byggingu skrifstofuhúsnæðis á Alþingisreitnum í samræmi við samþykkt skipulag þar um. Samkvæmt þarfagreiningu og húsrýmisáætlun er þörf fyrir um 5.000 m² nýbyggingu ásamt um 750 m² bílakjallara. Stærðarþörf er því alls um 5.750 m².
- Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi er heimilt að byggja allt að 7.400 m² á reitnum. Heimild er því til að byggja um 2.400 m² til viðbótar ef þörf reynist.
- Lagt er til að haldin verði opin hönnunarsamkeppni, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, um útfærslu byggingarinnar og skipulag lóðar.
- Heildarkostnaður er áætlaður 2.588 m.kr. Ekki hefur verið tekið tillit til verðbóta í þessari áætlun. Kostnaður vegna skrifstofu- og tækjabúnaðar er ekki innifalinn í áætlun.
- Áætlað er að kostnaður við heildarverk verði 75 m.kr. á árinu 2016, um 700 m.kr. á árinu 2017, um 900 m.kr. á árinu 2018 og um 914 m.kr. á árinu 2019.
- Heildartímaáætlun gerir ráð fyrir að verkefnið taki alls fjögur ár, það er áætlunargerð (hönnun) og verkleg framkvæmd.
Við gerð frumathugunar var farið yfir fyrirliggjandi gögn frá Alþingi og Batteríinu og deiliskipulag rýnt. Þarfagreining ásamt húsrýmisáætlun var unnin sérstaklega til að skoða starfsemi og meta rýmisþörf Alþingis.
Áætlunargerð
Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir veitti leyfi til áætlunargerðar. Hún hófst með því að auglýst var hönnunarsamkeppni um verkefnið í júní 2016. Góð þátttaka var í samkeppninni og bárust 22 tillögur frá innlendum og erlendum aðilum. Niðurstaða fékkst í desember 2016 og hlaut Studio Grandi 1. verðlaun. Á árunum 2017-2019 var unnið að hönnun og frekari útfærslu byggingarinnar. Haustið 2019 var jarðvinna vegna verkefnisins boðin út og bauð verktakafyrirtækið Urð og grjót lægsta verðið.
Verklegar framkvæmdir
Fyrsta skóflustungan að byggingunni var tekin 4. febrúar 2020 og í kjölfarið hófst jarðvinna á svæðinu.
Byggingin mun fara í vottunarferli fyrir umhverfisvæna hönnun, BREEAM, og sér ráðgjafi um að BREEAM vottun fáist með viðeigandi árangri. Ráðgjafar munu einnig hanna bygginguna eftir aðferðafræði BIM. Verkefnið verður unnið eftir hugmyndafræði VÖR - Vistkerfi, öryggi og réttindi, sem lýtur að því að verkefnið hafi jákvæð samfélagsleg áhrif.
Útboð á uppsteypu og fullnaðarfrágangi hófst í júlí 2020 og voru tilboð opnuð 3. september.