Ofanflóðavarnir Patreksfirði - Mýrar
- Staða: Í áætlunargerð
- Verkefnisnúmer: 633 1756
- Tímaáætlun: Áætlað er að verkinu ljúki 2026
Um verkefnið
Verkefnið nær til ofanflóðavarna í Vesturbyggð, gatnanna Hóla og Mýra á Patreksfirði. Verkkaupi er Vesturbyggð í samvinnu við ofanflóðasjóð.
Frumathugun
Frumathugunin Ofanflóðavarnir í Vesturbyggð, Hólar og Mýrar á Patreksfirði, dagsett í desember 2016, var unnin af Verkís hf. í samstarfi við Landmótun sf., þær Aðalheiði E. Kristjánsdóttur og Þórhildi Þórhallsdóttur, landslagsarkitektaa FÍLA, WSL-Institut für Schnee- und Lawinenforschung SLF, Sviss, og Veðurstofu Íslands. Höfundar frumathugunarinnar voru Kristín Martha Hákonardóttir, verkefnastjóri Verkís hf. við gerð frumathugunar, auk Áka Thoroddsen, Hallgríms Daða Indriðasonar, Hrafnkels Más Stefánssonar og Snorra Gíslasonar.
Í frumathuguninni miða tillögur að vörnum að því að uppfylla kröfur um öryggi samkvæmt reglugerð. Öll hús við göturnar standa á hættusvæðum, þar af standa 13 hús á hættusvæði C, tvö hús á hættusvæði B og 6 hús á hættusvæði A. Staðsetning jafnáhættulína endurspeglar hættu á stórum snjóflóðum úr megin upptakasvæðinu ofan hafnar en litlum til meðalstórum flóðum vestan þess. Hætta vegna grjóthruns á svæðinu er talin meiri en vegna skriðufalla. Hættan er talin fylgja jafnáhættulínu CB.
Lagt er til að reistur verði 5–11,5 metra hár og brattur varnarfleygur ofan efstu húsa við Hóla og Mýrar til að beina flóðum úr megin upptakasvæðinu frá byggð og út í sjó en stöðva flóð úr vestara upptakasvæðinu ofan byggðar. Jafnframt að mótaður verði flóðfarvegur milli fleygsins og fyrirhugaðs varnargarðs við Urðargötu. Einnig er lagt til að snjósöfnunargrindum verði komið fyrir uppi á fjalli til að draga úr snjósöfnun í upptakasvæði neðan fjallsbrúnar, og vindkljúfar verði á fjallsbrún til þess að brjóta upp hengjur sem gjarnan myndast þar í skafrenningi ofan af fjalli. Lagt er til að fleygurinn verði byggður úr efni úr skeringum við fleyginn og jarðvegsstyrkingakerfi verði notuð til þess að tryggja bratta flóðhliða (flái 1:0,25, lóðrétt:lárétt). Flái hlémegin verður mildari og lagaður að landslagi eins og mögulegt er. Þröngt er um varnir á svæðinu.
Heildarefnismagn í varnarfleyginn er áætlað um 85.000 m3. Umframefnismagn úr skeringum er áætlað um 220.000 m3.
Kostnaður við fleyg og flóðrás er metinn um 500 m.kr. og snjósöfnunargrindur og vindkljúfa um 350 m.kr. Heildarverðmæti eigna innan núverandi hættusvæða B og C sem fleygurinn mun verja er 199 m.kr. miðað við fasteignamat ársins 2016. Brunabótamat sömu eigna er 697 m.kr.