Arnarhvoll - endurbætur innanhúss, 3. áfangi
- Verkkaupi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
- Staða: Framkvæmd lokið
- Verkefnisnúmer: 509 0926
- Verkefnastjóri: Á stigi frumathugunar: Bjargey Björvinsdóttir. Á stigi áætlunargerðar: Gíslína Guðmundsdóttir. Á stigi verklegrar framkvæmdar: Ármann Óskar Sigurðsson.
- Stærð mannvirkis: Endurinnrétting kjallara, 1., 2. og 3. hæðar í austurálmu Arnarhvols, alls um 1.400 fermetrar.
- Tímaáætlun: Áætluð verklok eru síðsumars 2019
Um verkefnið
Verkefnið felst í að endurinnrétta kjallara, 1., 2., og 3. hæð í austurálmu Arnarhvols. Þetta er þriðji og jafnframt stærsti áfanginn í innanhússbreytingum á Arnarhvoli. Byrjað var á utanhússviðgerðum og síðan tóku við tveir áfangar í innanhússbreytingum og endurbótum á árunum 2013-2016. Fjármála- og efnahagsráðuneytið er til húsa í Arnarhvoli.
Hönnun: Gláma·Kím og EFLA verkfræðistofa
Verktaki: Sérverk ehf.
Umsjón og eftirlit: Framkvæmdasýsla ríkisins
Vakin er athygli á að um er að ræða virðulegt og gamalt hús í miðborginni og nálgast þarf allar framkvæmdir með hliðsjón af því. Hönnun miðast við að færa vinnuaðstöðu starfsmanna í nútímalegt horf með opnum og sveigjanlegum vinnurýmum með góðri fundaraðstöðu og aðstöðu fyrir starfsfólk.
Frumathugun
Frumathugun vegna heildarendurbóta á Arnarhvoli, bæði innanhúss og utan, var unnin árið 2012 af arkitektastofunni Glámu/Kím. Í framhaldi af þeirri frumathugun gaf FSR út frumathugun árið 2013 sem byggð var á frumathugun Glámu/Kím og ber hún nafnið: Arnarhvoll – endurnýjun húsnæðis (utan og innan).
Áætlunargerð
Fjármála- og efnahagsráðuneytið heimilaði, í desember 2015, að hefja mætti forhönnun á verkefninu og síðan áætlunargerð að loknu samþykki forhönnunar.
Ákveðið var af verkkaupa að við áætlunargerð endurbóta og breytinga innanhúss, í samræmi við upprunalega ástandskönnun, þá yrði framkvæmdum áfangaskipt til að minnka umfang framkvæmda hverju sinni í húsinu. Fyrsti áfangi framkvæmda voru endurbætur utanhúss, verknúmer og skilamat 509 0922.
Í fyrsta áfanga innanhússframkvæmda, verknúmer og skilamat 509 0923/24, var tekin fyrir efsta hæð (3. hæð) vesturhluta hússins, svokallaður ráðherragangur, ásamt snyrtikjörnum allra hæða og lyfta var sett í húsið. Í 2. áfanga innanhússendurbóta og breytinga, verknúmer 509 0925, voru gerðar endurbætur á 1. og 2. hæð vesturhluta Arnarhvols.
Í þeim áfanga sem hér er fjallað um, 3. áfangi endurbóta innanhúss, verða gerðar endurbætur á kjallara, 1., 2., og 3. hæð í austurálmu Arnarhvols. Gláma/Kím Arkitektar, sem unnið höfðu frumathugun fyrir ráðuneytið, ásamt hönnun endurbóta, bæði utanhúss og 1. og 2. áfanga innanhúss framkvæmda, voru fengnir til verkefnisins, enda var umfang þess undir útboðsmörkum þjónustu. Sama á við um verkfræðihönnun þessa áfanga sem var í höndum EFLU verkfræðistofu eins og fyrri áfangar.
Verkleg framkvæmd
Kostnaðaráætlun nam kr. 385.417.343. Tilboð voru opnuð 10. október 2017. Alls bárust þrjú tilboð. Tilboði verktakans Sérverk ehf. var tekið þann 22. nóvember 2017 sem var 112% af kostnaðaráætlun.
Verkinu er skipt upp í þrjá áfanga. Verklegar framkvæmdir við 1. áfanga hófust 2. janúar 2018 og þeim lauk í október síðastliðnum. Vinna er hafin við 2. áfanga sem er á 2. hæð hússins. Verið er að rífa milliveggi og loftaklæðningar ásamt niðurtekningu raf- og pípulagna samhliða. Áætlað er að 2. áfanga ljúki í mars 2019. Verður þá farið í 3. áfanga sem er endurbætur á 3. hæð og er gert ráð fyrir að þeim áfanga ljúki síðsumars 2019.
Verkið er áfangaskipt því full starfsemi er í húsinu á meðan framkvæmdir standa yfir. Hver hæð er rýmd á meðan verið er að taka hæðina í gegn og starfsfólki komið fyrir á öðrum hæðum þannig að það þrengir að því á meðan staðið er að þessum framkvæmdum.