Húsnæðismál forsætisráðuneytisins og Stjórnarráðsins
- Staða: Í áætlunargerð
- Verkefnisnúmer: 601 0015
- Verkefnastjóri: Örn Baldursson
Um verkefnið
Í lok árs 2015 óskaði forsætisráðuneytið eftir að Framkvæmdasýslan ynni frumathugun og þarfagreiningu vegna húsnæðismála forsætisráðuneytisins og Stjórnarráðsins.
Forsætisráðuneytið er í dag með starfsemi í þremur byggingum á Stjórnarráðsreitnum við Lækjargötu/Hverfisgötu og er stefnt að því að koma starfseminni fyrir á einum stað í framtíðinni. Unnin var frumathugun vegna viðbyggingar við Stjórnarráðshúsið í Lækjargötu.
Í framhaldi af frumathugun var hafin undirbúningur tveggja opinna samkeppna. Annars vegar framkvæmdasamkeppni um 1.200 m² viðbyggingu við gamla Stjórnarráðshúsið og hins vegar hugmyndasamkeppni um skipulag svokallaðs Stjórnarráðsreits sem markast af Ingólfsstræti, Skúlagötu, Klapparstíg og Lindargötu.
Samkeppnirnar má rekja til þess að í október árið 2016 ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að efna til hátíðahalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi. Meðal þess sem ríkisstjórninni var falið að gera af því tilefni var að efna til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit.
Markmiðið með samkeppninni um viðbygginguna við gamla Stjórnarráðshúsið er meðal annars að fá fram bestu mögulegu lausn á viðbyggingu aftan við Stjórnarráðshúsið svo unnt sé nýta hina sögulega byggingu áfram sem aðsetur forsætisráðuneytis og fundarstað ríkisstjórnar Íslands og ráðherranefnda. Markmiðið með samkeppninni um skipulag Stjórnarráðsins er meðal annars að fá fram lausn þar sem áhersla er lögð á raunhæfar og spennandi tillögur um heildarlausn á skipulagi á reitnum þannig að byggja megi upp á heildstæðan hátt framtíðarhúsnæði ráðuneyta, stofnana ríkisins og dómstóla meðal annars með hagræðingu í huga.
Samkeppnirnar voru auglýstar í apríl 2018 og voru úrslit kynnt 3. desember 2018 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Framkvæmdasýsla ríkisins annaðist framkvæmd samkeppninnar fyrir hönd forsætisráðuneytisins. Alls bárust þrjátíu tillögur um hönnun viðbyggingar við Stjórnarráðshúsið og átta tillögur í samkeppnina um skipulag Stjórnarráðsreits. Báðar samkeppnirnar voru unnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands en hugmyndasamkeppnin um skipulag Stjórnarráðsreits var einnig unnin í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, afhenti 3. desember 2018 verðlaun fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og opnaði sýningu á tillögum í framkvæmdasamkeppni um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og hugmyndasamkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Í samkeppnunum var meðal annars lögð áhersla á umhverfisvænar lausnir, vandað skipulag, góða byggingarlist og heildarlausn.
Þrjár tillögur hlutu verðlaun í sitthvorri samkeppninni, auk þeirra sem hlutu innkaup og þeirra sem eru taldar athyglisverðar.
Verðlaun fyrir samkeppni um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið:
Fyrstu verðlaun hlutu Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason hjá KURTOGPÍ og Garðar Snæbjörnsson, Jóhanna Høeg Sigurðardóttir og Ólafur Baldvin Jónsson.
Önnur verðlaun hlutu Hjörtur Hannesson arkitekt, Haraldur Örn Jónsson arkitekt og Kristján Garðarsson, arkitekt hjá andrúm arkitektar.
Þriðju verðlaun hlutu Ene Cordt Andersen, arkitekt MAA, Þórhallur Sigurðsson, arkitekt MAA, Ali Tabatabai arkitekt, Kim Bendsen arkitekt og Laura Voinescu, arkitekt hjá ANDERSEN & SIGURDSSON ARKITEKTAR.
Dómnefndarálit um framkvæmdasamkeppni viðbyggingar við Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu
Verðlaun fyrir samkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits:
Fyrstu verðlaun hlutu T.ark Arkitektar og SP(R)INT Studio. Karl Kvaran, arkitekt (FAÍ) og skipulagsfræðingur, Ivon Stefán Cilia, arkitekt, FAÍ, Sahar Ghaderi, arkitekt Ph.D, og Sara Mortazavi, arkitekt skipa hönnunarteymið.
Önnur verðlaun hlutu Ólafur Finnsson, Diana Cruz, Knut Hovland og Hallgrímur Þór Sigurðsson hjá Nordic – Office of Architecture, Victoria Batten, Louise Fill Hansen hjá SLA og Jóhanna Helgadóttir og Bergþóra Kristinsdóttir hjá Eflu.
Þriðju verðlaun hlutu Anna María Bogadóttir, arkitekt hjá Úrbanistan, Eva Huld Friðriksdóttir arkitekt og Magnea Þóra Guðmundsdóttir, arkitekt hjá Teiknistofunni Stika, og Rainer Stange landslagsarkitekt og Stine Svanemyr, landslagsarkitekt hjá Dronninga landskap.
Dómnefndarálit um hugmyndasamkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits
Innkaup og athyglisverðar tillögur
Auk tillaga sem hlutu verðlaun voru eftirtaldar tillögur keyptar og aðrar fengu viðurkenningu sem athyglisverðar tillögur í samkeppnunum tveimur.
Viðbygging við Stjórnarráðshúsið:
- Innkaup: T.ark Arkitektar ehf.
- Innkaup: KRADS og AAR
- Innkaup: TRÍPÓLÍ ARKITEKTAR
Athyglisverð tillaga: HORNSTEINAR ARKITEKTAR
Athyglisverð tillaga: Cubo Arkitekter A/S
Athyglisverð tillaga: PKdM
Hugmyndasamkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits:
Innkaup: Sei ehf.
Innkaup: ASK Arkitektar ehf.
Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri.