Skúlagata 4 - Húsnæði ráðuneyta
- Verkkaupi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið
- Staða: Í verklegri framkvæmd
- Verkefnisnúmer: 509 0178
- Verkefnastjóri: Guðmundur Möller
Á árinu 2017 var unnin af hálfu Framkvæmdasýslu ríkisins frumathugun á því hvort fýsilegt væri að flytja ráðuneyti félsgsmála og heilbrigðismála í húsnæði Hafrannsóknarstofnunar við Skúlagötu 4 í Reykjavík. Í byggingunni eru fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Niðurstaða frumathugunar var að húsnæðið við Skúlagötu myndi henta vel, auk þess sem flutingur í húsið myndi ríma vel við áform um að byggja húsnæði fyrir önnur ráðuneyti á svokölluðum stjórnarráðsreit, sem nær frá Lindargötu í suðri til skúlagötu í norðri, Kalkofnsvegi í vestri til Klapparstígs í austri. Fyrir á reitnum eru einnig fjármálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Undirbúningur framkvæmda fór af stað að lokinni frumathugun. Lauk áætlunargerð með samþykki Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir í júlí 2019. Ætlunin er að breyta og endurbæta skrifstofuhúsnæði á 2. og 3. hæðum hússins fyrir not félags- og heilbrigðisráðuneytis, auk þess sem hluti fyrstu hæðar verði endurinnréttuð sem almenn rými fyrir ráðuneytin fjögur sem verði í húsinu framvegis. Úr verði nútímalegt og hagkvæmt skrifstofuhúsnæði sem hannað verður í anda verkefnamiðaðs vinnuumhverfis. Þar er lögð áhersla á að húsnæði henti fjölbreyttri starfsemi og nútímalegum vinnubrögðum.
Á árinu 2019 fór fram útboð á hönnunarvinnu og urðu Yrki arkitektar hlutskarpastir í útboðinu. Í upphafi yfirstandandi kjörtímabils varð talsverð uppstokkun á ráðuneytum. Í kjölfarið var ákveðið að allt húsið yrði endurgert.